152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:59]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og aftur hittir hún naglann á höfuðið. Ég get upplýst hv. þingmann um að staðan á talsmannaþjónustunni hjá Útlendingastofnun er sú að í raun getur hvaða lögmaður sem er látið setja sig í ákveðinn lista hjá Útlendingastofnun. Það sem er kannski, ég veit ekki hvort ég á að segja skondið því að það er meira svona grátlegt en broslegt, en stofnunin fékk ábendingar um að kannski væri réttast að hafa einhvers konar gæðaeftirlit með talsmönnum sem fara í þetta, einhvers konar tryggingu fyrir því að fólk hefði reynslu í málaflokknum og annað. Útlendingastofnun misskildi þetta snarlega og setti upp gæðaeftirlit sem gengur ekki út á það að fólk hafi reynslu af málaflokknum og sinni sínu starfi vel gagnvart sínum skjólstæðingum heldur að það sé þægt gagnvart Útlendingastofnun og hafa verið settar viðmiðunarreglur, sem ég hvet alla til að kynna sér, á vefsíðu Útlendingastofnunar um gæðaeftirlit með talsmönnum í þessari þjónustu sem snúast fyrst og fremst um að viðkomandi lögmenn sýni samstarfsvilja (Forseti hringir.) og séu þægir við Útlendingastofnun. (Forseti hringir.) Það sýnir það hugarfar sem ég var að tala um hérna áðan.