152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir málefnalega ræðu og málefnalega nálgun. Ég vil aðeins segja varðandi þetta með rannsókn og skoðun á hverri einstakri umsókn að það er alveg skýrt í mínum huga, í þessu frumvarpi, að í málum þar sem umsækjendur eru þegar komnir með alþjóðlega vernd í öðru ríki er alltaf skoðað hvort umsækjandi njóti virkrar alþjóðlegrar verndar. Það skal kannað hvort viðkomandi ríki virði grundvallarmannréttindi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, svo sem flóttamannasamninginn, og hvort raunhæf vernd sé veitt. Það eru öll mál skoðuð á einstaklingsbundnum grunni. Það er ágætt að minna á það, af því að hér hefur svolítið verið rætt um Dyflinnarsamstarfið, að markmið þess er að tryggja að eitt aðildarríki sé ábyrgt fyrir meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd til að tryggja þannig skjótan aðgang umsækjandans að málsmeðferð þar sem tekin er afstaða til þess hvort hann eigi rétt á alþjóðlegri vernd eða ekki. Út á það gengur þetta samkomulag og það er ágætt að nefna það hér í því samhengi að það er orðið mjög fátítt að fólki sé vísað á brott á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Það heyrir orðið frekar til undantekninga en var mjög algengt hér fyrir nokkrum árum. Það verður að gera greinarmun á fólki á flótta og fólki í leit að betra lífi. Þetta er neyðarkerfi — við þurfum þá að útvíkka þessa umræðu yfir í dvalarleyfi eða atvinnuleyfi. Það er annað mál. En ég get tekið undir það með hv. þingmanni, og það er sjálfsagt að ræða það og það er mikill áhugi og hreinlega í stefnu Sjálfstæðisflokksins að slíkt sé skoðað, að útvíkka réttindi þeirra sem hingað koma, vilja flytjast hingað og eru í leit að betra lífi og eru þegar kannski að fara út á vinnumarkaðinn. Við teljum reyndar að það sé mjög mikilvægt fyrir atvinnumarkaðinn að fá slíka aðila til landsins.