152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir andsvarið og ég er glöð og ánægð að heyra að þetta sé hans nálgun og sjónarmið varðandi það að fram fari rannsókn og mat. Ég myndi þá vilja spyrja hann að því hvort hann telji að svo sé í reynd í dag, að þetta sé svo í praxís, að þetta sé hluti af hinu almenna verklagi og hvort hann telji að það verði einhverjar breytingar í þessum efnum með því frumvarpi sem hann er hér að leggja fram.

Varðandi dvalarleyfin og atvinnuleyfin ætla ég að segjast vera skoðanasystir hæstv. dómsmálaráðherra því að ég held að hér sé í reynd komið fínasta verkfæri til að létta þunganum af kerfinu. Við höfum reyndar talað fyrir því í Viðreisn í þessum þingsal, og ég held ég hafi strítt forvera dómsmálaráðherra, sem var í því embætti áður, með því hvort hún bara þekkti einhvern sem gæti komið þessu til leiðar. En ég er alveg viss um að ef ríkisstjórnin kæmi með frekari frumvörp í þessa áttina, því að þau eru íslenskum atvinnumarkaði til góða, þá fengju þau mál fínustu viðtökur hér í þingsal.

En ég hef þessar tvær spurningar til ráðherrans, þ.e. hvort hann telji þá að ekki verði nein breyting hvað varðar þetta mat með því frumvarpi sem hann er að leggja fram núna, hvað varðar mat á fólki sem þá þegar hefur hlotið alþjóðlega vernd.