152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé ekki að verða nein grundvallarbreyting á því að hvert og eitt tilfelli er skoðað og þess verður gætt að um sé að ræða virka vernd í viðkomandi ríki. Hér var í umræðunni áðan gjarnan vitnað til þess að verið væri að senda fólk út á galeiðuna, það væri verið að senda það í lífshættu og þaðan af verri aðstæður að öllu leyti. Það er auðvitað ekki svo.

Virðulegur forseti. Við erum auðvitað fyrst og fremst að reyna að greiða úr málum þeirra sem þurfa raunverulega vernd samkvæmt þessu neyðarkerfi. Verndarkerfið er neyðarkerfi þar sem við skjótum vernd yfir þá sem eru raunverulega á flótta. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Mig langar aðeins að þakka hv. þingmanni fyrir þá ábendingu sem hann kom með hér áðan varðandi Útlendingastofnun, að þingmenn eigi ekki að beina gagnrýni sinni að Útlendingastofnun, þeir eigi að beina henni að ráðherranum. Útlendingastofnun og starfsfólk þar vinnur í umboði hans og ráðuneytisins. Svo vil ég rétt skjóta því inn í að talsmannafyrirkomulagið gengur bara mjög vel með þeim breytingum, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef. Ég hef engar áhyggjur af því að það muni tefja málsmeðferð.