152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:22]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta snýst nefnilega líka um þjónustu — og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þjónustan er rosalega mikilvæg. Ég held að það sé vanmetið hversu mikilvæg hún er. Til þess einmitt að fá svar við því hvaða áhrif það getur haft að skerða þjónustu hjá fólki í neyð þá er mikilvægt að hafa hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hér vegna þess að það er hans málaflokkur og þar er þjónustan og allt sem tengist því. Það er mikilvægt að fá þau sjónarmið að borðinu, að ræða um þjónustuna og hvað gerist ef þjónusta er skert eða tekin frá fólki í neyð þar sem það hefur verið í 30 daga og er synjað og þarf þá bara að finna út úr sínum málum, og hvað gerir fólk í neyð? Það gerir ótrúlegustu hluti. Við skulum ekki gleyma því að ef fólk er í neyð og upplifir raunverulega hættu í öðru landi þá gerir það ótrúlegustu hluti, það er nú bara þannig. Ef við ræðum um fylgdarlaus börn og annað — ef fólk er í neyð er það líklegt til alls. Ef fólk upplifir að lífi sínu sé ógnað á einn eða annan hátt þá gerir fólk ýmsa hluti sem það hefði ekki gert ef staðinn væri vörður um réttindi þess og því veitt þjónusta og tekið tillit til þess að þau séu manneskjur.