152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ýmislegt hefur verið sagt hér í kvöld sem þarfnast frekari umfjöllunar. Ég hef sjálf gerst sek um að fara með rangfærslur og vil ég leiðrétta þær. Það er nefnilega ekki þannig að fólk sem hefur fengið vernd í öðrum ríkjum eigi rétt á að vera í flóttamannabúðum. Þegar fólk er endursent til ríkja eða er komið með vernd í ríki og flýr þaðan af því að það býr á götunni — það fólk á ekki rétt á að fá skjól, ef skjól má kalla, í flóttamannabúðum. Það eru eingöngu þeir sem eru að bíða niðurstöðu umsókna sinna í því ríki sem mega dvelja í yfirfullum flóttamannabúðum. Öðrum er gert að fara. Og hvað þýðir það? Það er einmitt þessi gata sem við erum alltaf að tala um í þessum svokölluðu öruggu ríkjum.

Ég held að það væri stjórnvöldum og ráðamönnum hollt að hugleiða þetta í smástund, að þegar við látum eins og fólk sé komið með vernd og að þar með sé því borgið, með börnin sín á flótta frá stríðsofsóknum eða grimmdarlegri meðferð eða pólitískum ofsóknum, hungursneyð, náttúruhamförum eða sárafátækt, þegar fólk leggur á flótta með börnin sín frá slíkum aðstæðum og fær vernd í fyrsta viðkomuríki í Evrópu, af því að það ríki hefur ekkert val um annað en að veita verndina af því að neyðin er augljóslega svo mikil, þá er það í sumum ríkjum engin vernd af því að þar er á stundum mjög erfitt að fá atvinnu. Það er erfitt að framfleyta sér nema með ólöglegri atvinnustarfsemi, verða þræll þeirra sem hagnýta sér slíkt ástand og ekkert skjól fyrir börnin, engin menntun og ekki húsnæði. Þannig að þessi svokallaða vernd sem við erum að tala um frá ákveðnum ríkjum, Grikklandi, á sumum stöðum í Grikklandi, Möltu, Ungverjalandi, Búlgaríu. Þegar við erum að tala um að við skoðum mál þeirra sem ekki hafa fengið raunverulega vernd þá þurfum við að skoða hvað felst í orðum stjórnvalda hér á Íslandi um raunverulega vernd. Er raunverulega vernd að finna í þessum ríkjum? Búlgaríu, Ungverjalandi, Grikklandi, Möltu, Portúgal? Ég hef heyrt svakalegar sögur frá fólki sem er að koma af búsetu á götunni. Við þurfum að átta okkur á þessum aðstæðum.

Og af því að við höfum talað mikið um það hér í kvöld hvort það sé nauðsynlegt að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra ræði hér og hlusti á það sem fram fer — í framhjáhlaupi, af því að það er stuttur tími eftir af þessum ræðutíma, ég hélt ég hefði meiri tíma — þá er nauðsynlegt að fara í breytingar á ýmsum lagagreinum, einmitt vegna breytinga og uppskiptingar á þeirri þjónustu sem er verið að veita, m.a. hjá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ég held að það hefði verið gott fyrir hann, fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs líka, að vera hér í salnum.