152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áframhaldandi samtal um þetta leiðindamál. Mig langar til að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður sleppti honum, þ.e. varðandi muninn á stöðu flóttafólks í Grikklandi sem annars vegar er að bíða eftir svari við umsókn sinni og hins vegar hefur fengið svar við umsókn sinni, og þá erum við að tala um jákvætt svar. Það er nefnilega svo kaldhæðnislegt að allt frá árinu 2011 hefur Ísland ekki verið að senda fólk aftur til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Nú verða allir rosalega ringlaðir af því að fólk tengir Dyflinnarreglugerðina við allar þessar endursendingar til Evrópuríkja. Málið er hins vegar að Dyflinnarreglugerðin gildir eingöngu þangað til fólk hefur fengið svar við umsókn sinni. Þegar það hefur fengið svar gildir Dyflinnarreglugerðin ekki lengur heldur er fólki einfaldlega vísað héðan og aftur til Grikklands af því að það er með dvalarleyfi þar í landi. Það er ekkert samkomulag, það er enginn samningur um það. Það er bara: Þú ert með dvalarleyfi þarna, við ætlum að færa þig þangað. Grikkland getur ekki neitað vegna þess að þú ert kominn með dvalarleyfi. Það sem er kaldhæðnislegt við þetta er að ástæðan fyrir því að við erum ekki að senda fólk til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sem sagt fólk sem hefur sótt um vernd eða ekki sótt um vernd, eða telur sig vera flóttamenn en hefur ekki fengið svar, er sú að aðstæður fólks í þeirri stöðu eru taldar óviðunandi í Grikklandi. En það er fólkið sem á rétt á því að dvelja í flóttamannabúðum í Grikklandi, sannarlega við hörmulegar aðstæður en engu að síður á það rétt á ákveðinni aðstoð frá alþjóðlegum hjálparsamtökum og öðru, fær einhverja matarpakka og annað slíkt. Þegar fólk hefur fengið svar við umsókn sinni, fengið vernd, gjörið svo vel, hér ertu með dvalarleyfi í Grikklandi, þá fellur öll þessi þjónusta niður, þá falla öll þessi réttindi niður. (Forseti hringir.) Það er þannig í dag, og það staðfesta margar opinberar skýrslur og áreiðanlegar, að staða fólks með vernd í Grikklandi er verri en staða fólks sem er að bíða eftir svari en það fólk sendum við ekki til Grikklands.