152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka upp atriði í frumvarpinu sem ég ræddi líka við hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur hér áðan, en það snýr að því að útvíkka það mengi landa sem hægt er að endursenda fólk til. Hingað til hafa endursendingar takmarkast við lönd sem eru hluti af Dyflinnarsamstarfinu, eru hluti af Schengen. Eins og kemur fram í umsögn Rauða krossins breyttist þetta fyrir ári. Þegar umsóknum frá Venesúela tók að fjölga umtalsvert brá Útlendingastofnun á það ráð að fara í ævintýralega túlkun á einum málslið 36. gr., ég er ekki með þetta fyrir framan mig, um að hægt sé að endursenda viðkomandi til lands sem hann hefur einhverja merkingarbæra tengingu við. Tengingin þarf ekki að vera merkilegri en svo að viðkomandi eigi kannski ættingja þar sem er með dvalarleyfi í landinu. Það þarf ekki einu sinni að liggja fyrir að viðkomandi geti fengið vernd með einhverjum skýrum og afgerandi hætti. Það kemur meira að segja fram í greinargerð með frumvarpinu að það sé ekki einu sinni skilyrði að viðkomandi land sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Í þessu frumvarpi er sem sagt verið að leggja til að lögfesta það sem Útlendingastofnun hefur verið að reyna að gera, sem er að neita að taka til efnismeðferðar mál flóttamanna sem hafa haft viðkomu eða einhvers konar tengingu við ríki utan Schengen og utan Dyflinnarsamkomulagsins, sem er auðvitað gríðarleg stefnubreyting og illframkvæmanlegt vegna þess að það eru engir samningar um endursendingar við önnur ríki. Það eru engir móttökusamningar eða neitt sem gerir stjórnvöldum kleift að fullvissa sig um að viðkomandi (Forseti hringir.) fái einhvers konar vernd þar. Þessi stefnubreyting hefur farið frekar lágt, ekki satt?