152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er vissulega ankannalegt ákvæði en það er hægt að setja það í enn verra samhengi, sem er að einu skilyrðin fyrir því að svipta þessa umsækjendur þjónustu, húsaskjóli og stuðningi er að þau hafi fengið endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Ég velti því upp, algjörlega burt séð frá því hvort hægt sé að endursenda viðkomandi eða ekki, hvort það sé látið nægja, þ.e. að búið sé að neita viðkomandi um efnismeðferð og þar af leiðandi fái hann alla vega enga þjónustu meir þótt kannski sé ekki hægt að senda hann neitt. Ég velti þessu bara fyrir mér vegna þess að miðað við lögin eins og þau liggja fyrir held ég að það sé alveg hægt.

Mig langar að snúa mér að öðru í þessu seinna andsvari mínu. Það er annað ákvæði sem mér finnst ekki hafa fengið nægilega mikla athygli og það er heimild sem á að veita yfirvöldum til að gramsa í sjúkraskýrslum og heilbrigðisupplýsingum allra útlendinga á Íslandi, það er það sem verið er að gera með þessari breytingu, án dómsúrskurðar. Þetta eru breytingar á 17.–19. gr. laganna, ég held að það sé í 5. gr. núverandi frumvarps, þar sem verið er að gefa heimild til þess að samkeyra heilbrigðisupplýsingar um alla útlendinga á Íslandi til að tryggja að þeir séu ekki ólöglega hér eða til að auðvelda flutning þeirra úr landi. Nú á ég útlenskan eiginmann, þetta mun eiga við um hann, þetta snertir mig persónulega kannski frekar hart. En algjörlega burt séð frá því: Er þetta bara allt í lagi?