Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:57]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns. Ég held að við hljótum að geta tekið undir það með Rauða krossinum að þetta ákvæði sé einfaldlega allt of óskýrt og geri allt of litlar kröfur um vernd í móttökuríki og til mats á aðstæðum þar. Ég held líka að við hljótum að taka undir að það hefði þurft að horfa til sjónarmiða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við gerð frumvarpsins. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. útlendingalaga skulu íslensk stjórnvöld, við framkvæmd ákvæða málsmeðferðarreglna í málum um alþjóðlega vernd, eiga í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, m.a. um framkvæmd og túlkun laga um útlendinga. Þetta kemur fram í athugasemdum við það tiltekna ákvæði sem við ræðum hér, og ég held að það sé mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta til mjög gagngerrar skoðunar þegar frumvarpið fer til nefndarinnar, sem ég hugsa að gerist hvað úr hverju. Ég tel mjög mikilvægt að skoða þetta þar. Í athugasemdunum segir að ekki sé gerð krafa um að móttökuríki sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Rauði krossinn furðar sig á þessu og bendir á að flóttamannasamningurinn sé grundvöllur þeirra viðmiða sem Ísland og samanburðarríki Íslands setja um vernd flóttamanna og það sé jafnvel ákveðin mótsögn fólgin í því að gera ekki kröfu um að móttökuríki sé aðili að flóttamannasamningnum en taka líka fram í ákvæðinu að umsækjandi verði að geta fengið vernd í móttökuríkinu í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Þetta er svolítið öfugsnúið allt saman.