152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að ganga lengra en hv. þingmaður. Ég ætla að fara þess á leit við allsherjar- og menntamálanefnd að hún hendi þessu ákvæði rakleiðis í ruslið og raunar frumvarpinu öllu. Það væru rétt málalok. Frumvarpið er ekki tækt, það er ómannúðlegt, það er fjandsamlegt fólki á flótta. Það er þinginu til skammar að vera að ræða þetta í fjórða sinn vitandi hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir einn viðkvæmasta hóp í heimi. Það sendir röng skilaboð um afstöðu Íslands og um ábyrgð í hinu alþjóðlega samhengi gagnvart fólki á flótta, sem hefur aldrei verið fleira, að við ætlum að herða ólina, hleypa engum inn, losna við sem flesta, henda fólki helst út í hafsauga. Það er ekki Ísland mannréttinda, jafnréttis og lýðræðis, sem við þykjumst vera á erlendri grundu, sem þessi ríkisstjórn er hér að færa inn í þennan þingsal. Þetta er eitthvað allt annað. Þetta á ekki heima á Alþingi Íslendinga, þetta á heima í ruslatunnunni.