152. löggjafarþing — 75. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[00:01]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir með hv. þingmanni. Auðvitað myndi ég helst vilja sjá ráðherra að draga þetta frumvarp til baka, eins og hefur verið gert með illa ígrunduð frumvörp á þessu þingi. Hins vegar á ég einhvern veginn ósköp bágt með að trúa því að það gerist, svona sérstaklega í ljósi þeirrar eftirvæntingar gagnvart því að samþykkja þetta frumvarp sem hefur birst hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, og í ljósi þess mikla stuðnings sem þetta frumvarp hefur fengið hér í dag frá a.m.k. einum þingmanni Vinstri grænna. Það voru bara tveir þingmenn í þingflokki Vinstri grænna sem sáu ástæðu til að gera fyrirvara við þetta frumvarp. Þeir fyrirvarar voru á alveg ofboðslega almennum nótum. Þannig að ég er ekki bjartsýnn á að ríkisstjórnin sjái sóma sinn í því að taka þetta frumvarp til baka inn í ráðuneytið og vinna það upp á nýtt, á nýjum grunni út frá einhverjum mannúðlegri sjónarmiðum um útlendingalöggjöfina, því miður. En að öðru leyti tek ég undir með því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns.