152. löggjafarþing — 75. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[00:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni mjög áhugavert ákvæði frumvarpsins sem lýtur að því að koma hér á framkvæmd sem er óframkvæmanleg, sem er að mínu mati eitt þeirra ákvæða þessa frumvarps sem afhjúpar það mjög glöggt að markmiðið með þessu frumvarpi og tilgangur er eitthvað allt annað en skilvirkni. Það kemur fram á mörgum stöðum í greinargerð með þessu frumvarpi að því sé ætlað að auka skilvirkni af því að við getum ekki tekið á móti öllum, getum ekki bjargað öllum heiminum og þurfum að bjarga bara þeim sem eru í neyð og við þurfum að hafa kerfi sem virkar til þess að bjarga þeim sem eru í raunverulegri neyð. Þess vegna megi ekki ofhlaða með einhverju fólki sem er ekki í raunverulegri neyð og það þurfi að auka skilvirkni við að koma því fólki frá.

Það sem er einmitt svo áhugavert við þetta er að þær aðferðir sem eru lagðar til með þessu frumvarpi til að koma í veg fyrir að fólk geti sest hér að, eru alls ekki skilvirkar. Þar er af ýmsu að taka, en það má segja að þar beri þetta ákvæði einna hæst. Þarna er ég að sjálfsögðu að tala um ákvæðið sem eykur á heimildir íslenskra stjórnvalda til að vísa málum frá án þess að umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sé skoðuð. Í rauninni segir ákvæðið að það megi gjarnan vísa fólki bara eitthvert sem Útlendingastofnun þykir eðlilegt að viðkomandi fari. Þetta er ekki hægt í framkvæmd, eins og hér hefur verið bent á, vegna þess að það er ekki þannig að stjórnvöld geti bara raðað fólki upp í flugvél og farið með þau eitthvert til hvaða landa sem er, viðkomandi verður að hafa þar heimild til komið og dvalar eða samþykkja með öðrum hætti að taka á móti viðkomandi.

Spurningin eða vangaveltan sem mig langar til að beina til hv. þingmanns snýr akkúrat að þessari skilvirkni, hvort hann telji að raunverulega eitthvað í þessu frumvarpi muni auka á skilvirkni í þessum málaflokki.