152. löggjafarþing — 75. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[00:09]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni hér áðan gæti ég staðið í þessum ræðustól ansi lengi til að fara yfir öll þau atriði sem ég tel athugaverð við frumvarpið sem við ræðum hér. Í fyrri ræðu minni, þar sem ég hafði nú alveg heilar 15 mínútur, tókst mér að tæpa á tveimur ákvæðum frumvarpsins sem ég tel vera skaðlega afturför frá ákveðnum umbótum sem gerðar voru árið 2016. Nú er verið að gera ákveðna breytingu sem ég myndi segja að væri grundvallarbreyting, sem er afturför frá því að íslenskum stjórnvöldum sé heimilt, jafnvel skylt, að taka til skoðunar og efnismeðferðar mál fólks sem hefur fengið stöðu flóttamanns í öðrum ríkjum.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra áðan, nú man ég ekki hvort það var ræða eða andsvar, að hann teldi þetta frumvarp ekki fela í sér neina grundvallarbreytingu. Mál þessara einstaklinga yrðu eftir sem áður skoðuð áður en ákvörðun yrði tekin um að vísa þeim úr landi. Þetta er áhugavert að mörgu leyti. Að vissu leyti hljómar það jákvætt. Ókei, við fögnum því sannarlega að það standi þá til að skoða þessi mál, þessar umsóknir, þrátt fyrir að lögin bjóði ekki upp á neitt annað en að þetta fólk verði flutt úr landi. En þetta vekur athygli og vekur upp spurningar hjá mér á nákvæmlega sama hátt og öll önnur ákvæði þessa frumvarps. Ef markmiðið er ekki skilvirkni, ef markmiðið er ekki meiri mannúð, ef markmiðið er ekki betri meðferð fjármuna, hvert er þá markmiðið? Hvert er markmiðið með frumvarpinu? Hvert er markmiðið með þessum lögum?

Þær breytingar sem hér er verið að gera ganga fyrst og fremst út á það að auka á heimildir íslenskra stjórnvalda til að koma í veg fyrir að fólk geti sest hér að. Það er verið að taka úr sambandi ákveðin tímamörk sem stjórnvöld hafa til að vinna mál sem gerir það að verkum að þau munu geta dundað sér við þau árum saman án þess að það hafi nein áhrif á réttarstöðu einstaklinga, án þess að þeir eigi sér von jafnvel eftir langan tíma hér á landi. Það er verið að auka heimildir stjórnvalda til að setja fólk í mjög erfiða stöðu sem gerir það þyngra í þjónustu fyrir kerfið. Það er nú einu sinni þannig að þó að fólk verði sett út á gaddinn í þessu kerfi þá hefur það ekki tíðkast hér á landi hingað til að neita fólki alfarið um neyðarþjónustu. Allar þessar breytingar eru á röngum forsendum. Þær eru smíðaðar með röngu hugarfari, með því hugarfari að hingað sé að leita fólk sem ekki þarf á aðstoð að halda. En þannig er það ekki. Það er þessi grundvallarmisskilningur sem er vandamál í kerfinu eins og það er.

Þessi grundvallarmisskilningur mun gera það að verkum að ef þetta frumvarp verður samþykkt og lögunum verður breytt með þessum hætti mun skilvirkni minnka. Mál munu taka lengri tíma, verða þyngri í vöfum, fólk muni þjást meira með alvarlegri afleiðingum fyrir þá einstaklinga og fyrir ríkissjóð, fyrir velferðarkerfið okkar allt. Þá veltir maður fyrir sér: Hver er tilgangurinn? Hver er tilgangurinn með þessu frumvarpi? Hver er tilgangurinn með þessum breytingum á þessum lögum? Tilgangurinn er sá, það er það eina sem ég get lesið út úr þessu, að halda ákveðnum hópi fólks frá landinu.

Mig langar enn og aftur að vitna í ræðu hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur sem tók svo vel til orða hér fyrr í kvöld. Hún varpaði fram þeirri spurningu hvort við ætlum að vera hluti af lausninni eða hluti af vandanum. Það kerfi sem við erum að eltast við með þessum breytingum er kerfi sem virkar ekki. Það virkar ekki til neins annars en að auka á þjáningar fólks og eyða meiri og meiri fjármunum, meiri og meiri tíma, í að eyðileggja líf fólks, valda jafnvel dauða eins og kerfi Evrópu hefur sannarlega gert, með því að útbúa það sem kallað er kirkjugarðurinn í Miðjarðarhafinu. Í stað þess að vera hluti af vandanum ættum við að vera hluti af lausninni, hugsa þetta allt upp á nýtt. Fyrsta skrefið í því hefur verið stigið í Evrópu.

Ég vil beina því til hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar og þingheims að skoða þau skref sem Þýskaland hefur verið að stíga í þessum málum. Nú hefðu margir haldið að Þýskaland væri komið með nóg af flóttafólki af því að það hefur opnað fangið oftar en einu sinni. (Forseti hringir.) Nei, svo er ekki. Þær breytingar sem Þýskaland er að gera lúta að því að líta á flóttafólk sem fólk, ekki dýr sem þarf að bjarga frá sprengjuregni, heldur fólk sem vill ekki bara lifa af heldur lifa.