152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

598. mál
[14:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er verið að spyrja að því hvað gerist eftir 30 dagana þegar félagslega þjónustan fellur niður, þ.e. þegar þau réttindi sem viðkomandi hafði hér sem umsækjandi um vernd eru fallinn brott, hvort það séu sveitarfélögin sem taki þá við þeirri þjónustu. Hafa ber í huga það grundvallaratriði að viðkomandi er þá í ólögmætri dvöl á Íslandi. Hann er að brjóta íslensk lög og honum ber að vísa úr landi og koma úr landi fari hann ekki sjálfviljugur. Það er auðvitað fyrst og fremst verkefni lögreglunnar að framfylgja því, framfylgja íslenskum lögum. Við gerum bara ráð fyrir því að svo fremi að viðkomandi sé ekki í felum hreinlega, að skorast undan réttvísinni, þá sé hann farinn úr landi að þessum 30 dögum liðnum, nema þau skilyrði séu til grundvallar sem ég taldi hér upp áðan, sem eru mjög mikilvægar undanþágur frá þessu atriði, sem snertir fólk sem er í viðkvæmri stöðu. Hver ber ábyrgð á því að fæða og klæða afbrotamenn við erfiðar aðstæður? Þeir hinir sömu bera þá ábyrgð á að upplýsa löggæsluyfirvöld um það svo hægt sé að framfylgja þeim lögum sem um þetta gilda. Þannig að ég held að þetta geti nú vart verið skýrara, virðulegi forseti.