Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

vaktstöð siglinga.

574. mál
[16:53]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003. Með lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, var miðstöð skipaumferðar í íslenskri efnahagslögsögu komið á fót. Samkvæmt lögunum hefur vaktstöðin það hlutverk að veita skipum sem sigla um íslenska efnahagslögsögu öryggisþjónustu sem felst meðal annars í vöktun og eftirliti með sjálfvirku tilkynningarkerfi skipa, móttöku og miðlun tilkynninga frá skipum sem flytja hættulegan og/eða mengandi varning, móttöku og miðlun neyðarkalla til viðeigandi aðila auk tilkynninga um óhöpp eða slys á sjó og vöktun alþjóðlegs neyðar- og öryggisfjarskiptakerfis skipa.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til fimm breytingar á þessum lögum. Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til þrjár breytingar á 2. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að bætt verði við 1. mgr. að markmið laganna sé að tryggja siglingavernd. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um siglingavernd, nr. 50/2004, fer vaktstöð siglinga meðal annarra stofnana með framkvæmd siglingaverndar. Vaktstöð siglinga hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að tryggja öruggar siglingar í íslenskri efnahagslögsögu, öryggi skipa, farþega og áhafna og efla varnir gegn mengun sjávar. Með hliðsjón af þessu er talið eðlilegt að lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, hafi að geyma skírskotun til þessa hlutverks.

Í öðru lagi er lagt til að við ákvæði 1. mgr., sem fjallar um hlutverk vaktstöðvar siglinga, bætist nýr stafliður um hlutverk miðstöðvarinnar við móttöku upplýsinga um úrgang og farmleifar skipa. Hér er um að ræða verkefni sem byggir á reglugerð nr. 1200/2014, um móttöku á úrgangi og farmleifum frá skipum. Vaktstöð siglinga tekur í dag á móti tilkynningum af þessu tagi í „SafeSeaNet“-gagnagrunninn sem hún annast rekstur á. Er talið rétt að þetta hlutverk vaktstöðvarinnar sé nefnt í lögum um vaktstöð siglinga. Rétt er að taka fram að þessar tvær breytingar snúa að verkefnum sem vaktstöð siglinga annast nú þegar. Það er því ekki verið að fela stöðinni nýtt hlutverk.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á 3. mgr. 2. gr. laganna þess efnis að Vegagerðinni verði heimilað að gera þjónustusamning um rekstur vaktstöðvar siglinga. Er það í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur frá gildistöku laganna. Í dag er sem sagt í gildi þjónustusamningur milli Siglingastofnunar Íslands og Neyðarlínunnar um rekstur vaktstöðvarinnar. Sá samningur var upphaflega til 10 ára en hefur verið framlengdur og hefur Vegagerðin tekið við umsjón samningsins þegar Siglingastofnun rann inn í Vegagerðina. Neyðarlínan sér í dag um rekstur þess vöktunar- og fjarskiptabúnaðar sem tilheyrir rekstri vaktstöðvarinnar samkvæmt þjónustusamningi.

Árið 2016 gerði Neyðarlínan síðan samkomulag við Landhelgisgæslu Íslands um þjónustu við framkvæmd samnings um vaktstöð siglinga. Samkomulagið er ótímabundið en uppsegjanlegt með 12 mánaða fyrirvara. Samkvæmt því fara starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands með stjórn allra verkefna vaktstöðvarinnar. Þannig deilast verkefni vaktstöðvarinnar í dag milli Neyðarlínunnar og Landhelgisgæslu Íslands, en Neyðarlínan er ábyrg, jafnt fjárhagslega og faglega, gagnvart Vegagerðinni fyrir þeirri þjónustu sem skylt er að veita samkvæmt lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, og þeim reglugerðum sem um starfsemina gilda.

Í 3. mgr. 2. gr. laga um vaktstöð siglinga segir að Vegagerðinni sé heimilt að bjóða út rekstur vaktstöðvar siglinga. Heimilt sé að skipta útboðinu í einstaka þætti. Talið er rétt að gera breytingu á ákvæði laga um vaktstöð siglinga þannig að kveðið er á um heimild til að gera þjónustusamning eða þjónustusamninga um þennan rekstur. Þá verði stofnuninni heimilt að gera samninga um einstaka þætti í starfsemi vaktstöðvar. Getur verið um einn eða fleiri samninga að ræða. Vaktstöð siglinga gegnir mikilvægu öryggishlutverki í siglingum hér á landi. Verkefni hennar byggjast meðal annars á alþjóðlegum skuldbindingum á sviði siglinga. Um sérhæft verkefni er að ræða sem kallar á sérstök fjarskiptakerfi og sérþekkingu. Ekki eru rök fyrir því að gera kröfu um að Vegagerðin haldi útboð á þessari grundvallarstarfsemi ríkisins á sviði siglingaöryggis. Rétt er að nefna að þetta fyrirkomulag er í samræmi við ákvæði laga um opinber innkaup, nr. 120/2016.

Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. mgr. 5. gr. laganna þess efnis að upphæð árgjalds sem eigandi hvers skips skal greiða fyrir þjónustu í sjálfvirka tilkynningarkerfinu verði tilgreind. Er þetta gert til að tryggja að álagning þessa gjalds sé í samræmi við 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem mælir fyrir um að ekki megi leggja á skatt nema með lögum og ekki sé heimilt að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta eða afnema hann. Við setningu laga um vaktstöð siglinga árið 2003 var gjald þetta í formi þjónustugjalds. Með lagabreytingu árið 2018 má ætla að árgjaldið hafi breyst úr því að vera þjónustugjald í að vera skattur. Er því rétt að lögin kveði á um upphæð gjaldsins. Er lagt til að árgjald verði 14.000 kr. Í síðustu auglýsingu um gjaldskrá vaktstöðvar siglinga, nr. 265/2016, er kveðið á um að árgjaldið sé 10.500 kr. Með tillögu þessari er stefnt að því að gjaldið haldi í við verðlagsbreytingar.

Loks er lögð til breyting í 3. gr. frumvarpsins þess efnis að nýrri málsgrein verði bætt við 7. gr. laganna. Í 7. gr. er kveðið á um tilkynningu skipa áður en komið er til hafnar. Samkvæmt greininni skulu skip, 300 brúttótonn að stærð og stærri, nema ríkisför og fiskiskip styttri en 45 metrar, sem eru á leið til hafnar, tilkynna komu sína til vaktstöðvar siglinga með tilteknum fyrirvara sem ákveðinn er í reglugerð. Lagt er til að hin nýja málsgrein kveði á um að farþegaskip sömu stærðar, sem sigli milli hafna hér á landi, skuli tilkynna vaktstöðinni um áætlaða leið að næstu höfn með tilteknum fyrirvara sem ákveðinn verði í reglugerð.

Landhelgisgæsla Íslands hefur bent á að farþegaskip sem sigla á milli hafna hér á landi fari ekki ávallt beina leið að næstu höfn. Þau sigli um firði í útsýnisferðum og hafi jafnvel viðkomu og hleypi farþegum í land án þess að leggja að höfn. Slíkar siglingar og viðkomur séu ekki tilkynningarskyldar og vaktstöðin viti fyrir vikið ekki ávallt um áætlanir þessara skipa sem geti valdið hættu. Rétt sé að þessi skip veiti vaktstöðinni upplýsingar um þá leið sem þau hyggjast fara.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem og 2. umr.