152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[17:17]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna framkominni áætlun. Þetta er ágætisplagg sem liggur hér, ítarlegar skýringar og fleira. Áætlun af þessu tagi er mikilvæg og henni ber að fagna. Mér varð hugsað til þess þegar við vorum að hlusta á Selenskí í þinginu í síðustu viku en hann velti upp ástæðunum fyrir því að Rússar væru að ráðast inn í landið, að það væri vegna þess að þeir væru að sækjast eftir auðlindum þjóðarinnar og landsins. Og hverjar voru auðlindirnar? Það var moldin og mannauðurinn. Ég held að það sé nefnilega málið að auðlindir alls landsins eru hverju landi mikilvægar og það fer eftir því hvernig við náum að nýta þær auðlindir sem við höfum hvernig okkur gengur sem þjóð, bæði hvað varðar sjálfstæði og hagsæld. Þetta er fámenn þjóð í stóru landi, er oft sagt um okkur. Við getum kannski keyrt hringinn á einum sólarhring en þetta er samt nokkuð fámennt og strjálbýlt land og íbúaþróun á landinu í heild hefur kannski ekki verið í jafnvægi. Alla þessa öld hefur okkur verið að fækka á tveimur landsvæðum, á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra, þó að sú þróun hafi snúist við frá 2014. Við erum loksins komin í plústölu á Vestfjörðum, 2%, og á Norðurlandi vestra vegna þess að okkur hefur tekist að nýta þær auðlindir sem til staðar eru þar. En við þurfum alltaf að horfa til þess að jafna þjónustu og jafna aðstöðu til búsetu um allt land til þess að við getum áfram nýtt þær auðlindir.

Hvað þessa byggðaáætlun varðar, hún hefur verið lögð fram frá 2015, þá leggur hún sem fyrr grunn að aðgerðum til að jafna búsetuskilyrði hvað varðar húsnæðismál, heilbrigðisþjónustu, fjarskipti, menntun og jöfn tækifæri til atvinnu, svo að fátt eitt sé nefnt. Við getum örugglega öll verið sammála um mikilvægi þess að allt landið sé í blómlegri byggð með hoppandi hamingjusömum íbúum og á landsbyggðinni eru starfandi öflug fyrirtæki sem skapa tekjur fyrir þjóðarbúið. Lífið á landsbyggðinni er alls konar og kallar á mismunandi nálganir. En ekkert gerist af sjálfu sér. Við verðum að halda öflugum byggðum allt í kringum landið og þá er nauðsynlegt að hafa raunhæfa byggðaáætlun. Við verjum 2 milljörðum á ári í byggðaáætlanir og alls konar uppbyggingu til landsbyggðarinnar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við séum sammála um hvert þeir renna og það sé skipulega gert svo það skili sér í öflugri byggðum og öflugra mannlífi. Með byggðaáætlun má lesa stefnu stjórnvalda hverju sinni í byggðamálum. Hún er í samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera og í samráði við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök. Samvinna er lykillinn í að viðhalda sjálfbærni byggða um allt land.

Hæstv. innviðaráðherra hefur lagt fram á Alþingi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Hún er lögð til grundvallar við gerð fjárlaga og í henni má finna metnaðarfull markmið í þá átt að landsbyggðin vaxi og dafni, ekki endilega á kostnað höfuðborgarsvæðisins því að það er mikilvægt fyrir okkur öll að eiga sterka höfuðborg sem við getum verið stolt af. Í þeirri byggðaáætlun sem hér er lögð fram er stuðst við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, enda eru þau mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem eru: Mannkyn, jörð, hagsæld, friður og samstarf, sem leiða okkur að aðalinntakinu sem er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Þetta er háleitt markmið sem við getum öll verið sammála um og það er mjög mikilvægt að við horfum til þessara markmiða þegar við horfum á byggðaáætlun. Það er þess vegna sem þau falla svo sérstaklega vel við byggðaáætlun því að það er mikilvægt að þessar stoðir séu virtar sem leiðarljós til að nálgast jafnrétti til búsetu út frá kröfum okkar og viðmiðum við þau byggðarlög sem við berum okkur saman við.

Farið hefur verið yfir það hvernig við ætlum að ná þessu og hvaða leiðir eru varðaðar í því sambandi. Ég ætla ekki að endurtaka það en hvet alla til að kynna sér þessa byggðaáætlun og hvernig tekist hefur til.

Mig langar í lokin að vísa á skemmtilega nýjung. Það má fylgjast með metnaðarfullum markmiðum íslenskra stjórnvalda í byggða- og fjarskipta- og samgönguáætlun á nýrri heimasíðu sem haldið er úti af innviðaráðuneytinu. Það er vefur sem er undir léninu vegvisir.is og er gagnvirkur upplýsingavefur þar sem hægt er að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri verkefna og árangursmælikvarða. Það er mjög gaman að fara þarna inn og skoða. Stundum finnst okkur lítið vera gert og lítið hafa áunnist en við getum séð það, þegar við förum um landið, bæði við sjálf og eins þegar við kíkjum þarna inn á vefinn, hver árangurinn er. Þannig getum við fylgst með og ég held að þetta sé mikilvægur mælikvarði inn í næstu byggðaáætlun þegar við förum að vinna að henni. Þar getum við skoðað einstaka áætlun og tiltekinn hluta af áætlun. Til dæmis er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlunar á landsvísu og aðgerðir byggðaáætlunar eftir landshlutum og til að mynda styrki til verslana eða fjarheilbrigðisþjónustu. Fyrir áhugafólk um stöðu á byggðastefnu og aðgerðum stjórnvalda í þessum efnum er upplagt að nýta sér þennan vef.

Ég er sannfærð um að eftir fimm ára aðgerðaáætlun og 15 ára byggðaáætlun getum við séð frekari dreifingu íbúa því að okkur hefur fjölgað um 35% þessa öld. Það hefur kannski dreifst mismunandi eftir landshlutum. Öll svæði hafa sína kosti og sínar auðlindir og því er mikilvægt að við höldum uppi í blómlegri byggð um allt land.