152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[17:52]
Horfa

Helgi Héðinsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innviðaráðherra kærlega fyrir yfirferðina og það að við fáum tækifæri til að ræða þetta skjal hér.

Ég get ekki látið hjá líða að koma hingað upp og lýsa ánægju minni með innihald þessarar tillögu. Hún ber með sér að þetta hafi verið yfirgripsmikið ferli sem margir hafa komið að og lagt góðar hugmyndir til málanna. Búið er að vinna ákaflega faglega úr þeim tillögum og hér eru boðuð risavaxin skref, okkur öllum til heilla og ekki síst þeim sem láta sig byggðamálin sérstaklega varða. Hér erum við að ræða grundvallaratriði fyrir alla íbúa þessa lands, að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Þetta hljómar afskaplega vel enda er þetta það sem við viljum gera. Vissulega eru einstaka kaflar í þessu skjali sem menn geta rökrætt og velt fyrir sér hvort skerpa þurfi þar á orðalagi eða öðru. En þegar ég lít á þetta er stóra myndin sú að hér eru boðaðar mjög vel skilgreindar og öflugar aðgerðir í þágu íbúa þessa lands.

Ég ætla að koma inn á eitt atriði sem mikið hefur verið kallað eftir á mínum heimaslóðum og í kjördæminu og ég held að verði grundvallaratriði. Mér hefur fundist fljúga aðeins undir radarinn hvað menn eru djarfir að mæta nýjum tímum og koma til móts við í raun og veru grundvallaratriði í jafnréttismálum fólks í landinu og þá vísa ég sérstaklega í ræðu sem hér var haldin áðan um jafnrétti og stöðu kvenna á landsbyggðinni sem oft er mikil áskorun að mæta.

Ég ætla að stökkva yfir í b-hluta sem fjallar um jöfn tækifæri til atvinnu. Það er ósanngjarnt að fara í einstaka liði í þessari áætlun vegna þess að þeir eru í meginatriðum allir ansi góðir. Ég ætla hins vegar að nefna liðinn B.7. sem fjallar um óstaðbundin störf, því að eins og ég nefndi áðan er boðuð grundvallarstefnubreyting í hugsun, mikil framsýni og miklar framfarir sem munu nást á grundvelli þess sem hér kemur fram, með leyfi forseta:

„Markmið: Að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni.

Stutt lýsing: Störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega …“

Í þessu felast gríðarleg tækifæri til þess að dreifa störfunum, nýta auðlindir betur og koma til móts við fólk um land allt.

Eins og ég nefndi áðan er hægt að fara í einstaka kafla og ræða þetta heilmikið. Við erum til að mynda að ræða stjórnsýslustöðvar ríkisins í héraði, hvernig við ætlum að standa vörð um þá þjónustu sem við búum við. Við erum að ræða um hvernig við ætlum að nálgast sjálfbærni byggða um land allt. Þar eru ákaflega metnaðarfullar og vel skilgreindar tillögur, með vel skilgreindum tengingum við aðrar stefnur og áætlanir, heimsmarkmiðin, fjármögnun og samstarfsaðila.

Ég ætla að segja þetta gott að sinni. Ég trúi því að vegferðin sem hér er boðuð muni verða grundvöllur mikilla framfara og framþróunar um land allt og lýsi yfir mikilli ánægju með það plagg sem hér er lagt fram.