152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[20:21]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér í dag að fela heilbrigðisráðherra að fylgja stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Í stefnunni koma fram tillögur og áhersluþættir sem ætlað er að bæta aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu í landinu. Þessi stefna skiptir mjög miklu máli, sérstaklega þar sem Ríkisendurskoðun kom með skýrslu fyrir stuttu þar sem farið var yfir stöðu geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk kynningu á þessari skýrslu og þar komu fram margir punktar. Til dæmis kom þar fram að ákveðin mismunun vegna búsetu, efnahags og tegundar geðvanda væri innbyggð í kerfið. Einnig var nefnt að tilteknir hópar væru á gráu svæði og fengju ekki þjónustu við hæfi. Ríkisendurskoðun kom með sjö tillögur til úrbóta, m.a. að efla ætti söfnun upplýsinga, greiningu og utanumhald, tryggja geðsjúkum samfellda þjónustu, útrýma gráum svæðum í geðheilbrigðisþjónustu, bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, huga að mönnun og sérhæfingu starfsfólks, tryggja tilvist geðheilsuteyma og vanda aðgerðaáætlanir og eftirfylgni þeirra. Þessar tillögur ríma mjög vel við þá þingsályktunartillögu sem við erum að ræða hér.

Ráðuneytið hefur fengið þessar tillögur úr skýrslunni til sín. Við eigum mjög mikla vinnu fyrir höndum til að auka og bæta geðheilbrigðisþjónustu í landinu og það sjá það allir. Ég fagna því að þingsályktunartillagan sé komin hér fram. Við þurfum að vinna vel að henni enda skiptir geðheilsa þjóðarinnar mjög miklu máli.