152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

um fundarstjórn.

[15:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Forseti nefndi hér áðan að hann ætlaði að kanna stöðuna. Ég get bara upplýst um stöðuna líkt og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hefur gert að ákveðnu leyti þó að ég sé ósammála um túlkunina. Það er sannarlega þannig að Útlendingastofnun hefur neitað að afhenda okkur gögn sem við höfum farið fram á með vísan í lög um þingsköp Alþingis. Við kröfðumst þess að fá gögnin fyrir upphaf þingfundar nú á mánudaginn. Við fengum þau ekki. Við fengum bréf sem sagði: Þið fáið þau ekki. Miðað við það sem kemur fram í bréfinu munum við ekki fá þau fyrir þinglok. Þetta heitir ekkert annað en að neita að afhenda gögn. Þá vil ég staðfesta grun hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar um að það séu mögulega einhverjar ankannalegar forsendur á bak við þessa neitun. Það hefur þegar komið fram í máli Útlendingastofnunar að það fari einhvern veginn í taugarnar á þeim að Alþingi sé að veita fólki ríkisborgararétt í trássi við þessar umsagnir og þetta álit sem kemur frá Útlendingastofnun. Hvað gerir Útlendingastofnun þá? Hún hættir að afhenda okkur þessar umsagnir. Ég vil bara ítreka: Staðan er sú að Útlendingastofnun er að neita að afhenda þessi gögn. Hún gerir það í skjóli ráðherra. (Forseti hringir.) Hún gerði það áður en ráðherra steig inn. Ég er ekki sammála því að verið sé að búa til grýlu úr opinberum starfsmönnum. Þeir sem bera ábyrgð á þessari stofnun, forstjóri hennar og ráðherra, geta gert það. (Forseti hringir.) En það er sannarlega Útlendingastofnun sem ber að afhenda þessi gögn, ekki ráðherra og hún neitar að gera það.