152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

börn á flótta.

[15:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Líkt og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir gerði að umtalsefni sínu hér áðan þá tilkynnti ríkisstjórnin þann 12. maí síðastliðinn að hún ætlaði að styrkja sveitarfélög um 200.000 kr. vegna hvers úkraínsks barns á flótta hérlendis. Ráðherra hefur borið því við að nú sé verið að taka sérstaklega utan um þetta verkefni, þ.e. komu flóttafólks hingað til lands vegna innrásarinnar í Úkraínu. Það svarar hins vegar ekki spurningunni um það hvers vegna stuðningurinn sé afmarkaður eftir þjóðerni, hvers vegna úrræðið eigi ekki einfaldlega við um allt fólk á flótta. Þessi áskorun er nefnilega ekki ný af nálinni. Skortur á stuðningi við börn af erlendum uppruna, ekki síst við börn á flótta, hefur áður verið gagnrýndur auk alvarlegra tafa á því að börn á flótta komist í skóla sem dæmi. Mörg þeirra vandamála hefur sannarlega mátt rekja til skorts á fjármagni og aðstöðu sveitarfélaganna til að veita þessum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á lögum samkvæmt. Stríðsátök í Sýrlandi og annað alvarlegt ástand fyrir botni Miðjarðarhafs hafa um árabil gefið ástæðu til að ætla að hingað leiti nokkur fjöldi fólks, þar á meðal börn. Á þessu ári hafa um 1.330 manns leitað hingað til lands. Þó að þorri fólksins sé af úkraínskum uppruna leitar enn hingað fólk frá öðrum ríkjum líkt og Venesúela, Palestínu, Sýrlandi og Afganistan. Á þeim tíma sem málaflokkurinn hefur verið á forræði hæstv. ráðherra hafa um 430 börn fengið hér vernd. Það sem af er ári hafa 249 úkraínsk börn fengið vernd. Líkt og bent hefur verið á hafa sveitarfélögin lengi kallað eftir auknu fjármagni til að sinna þessum verkefnum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna hann hefur ekki talið ástæðu til þess að gera þetta fyrr, að styðja við öll þau börn á flótta sem hingað hafa komið á undanförnum árum.