152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

geðheilbrigðismál og endurskoðun lögræðislaga.

[15:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun var fjallað um skýrslu umboðsmanns Alþingis vegna eftirlitsheimsóknar hans á bráðageðdeild 32C við Hringbraut í september síðastliðnum. Ég er hingað komin með tvö erindi. Annars vegar vildi ég kvarta undan aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum. Fyrir liggur að á geðdeildum landsins eru viðhafðar fornaldaraðferðir við að aðstoða fólk sem á við geðræn vandamál að stríða. Þá langaði mig að spyrja hæstv. forseta hvað líði tilnefningum og skipun í þingmannanefnd um heildarendurskoðun lögræðislaga í ljósi þessarar skýrslu.