Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

breyting á reglum um brottvísanir.

[15:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Að það sé eitthvert annarlegt sjónarmið að biðja fólk um að gangast undir PCR-próf — við erum ekki með þvingunarúrræði í þeim efnum í okkar lögum í dag eins og mörg önnur lönd eru með þar sem þetta er gert að skilyrði. Reyndar er reynslan sú hjá þeim löndum þar sem þetta skilyrði er fyrir hendi að þá reynir sárasjaldan á það.

Já, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, virðulegur forseti, að verndarkerfið er til að fólk á flótta fái einhvers staðar málsmeðferð og það er nákvæmlega það sem gerist í Grikklandi. Varðandi það að Grikkland hafi sent út neyðarkall og ráði ekki við vandann þá er það ekki mat grískra stjórnvalda vegna þess að grísk stjórnvöld eru að taka á móti þessu fólki og eru að vinna ágætlega í því að afgreiða mál þeirra sem þangað leita. Það er alla vega samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk. Það gengur bara nokkuð vel og hratt fyrir sig í Grikklandi að afgreiða mál þeirra sem þangað leita til að fá vernd þegar það á við.