Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[16:00]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999. Fela þær breytingar í sér að lagt er til að fyrir afmörkuð stærri verkefni sé hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar 35%, en fyrir önnur verkefni sem uppfylla skilyrði laganna sé hlutfallið áfram 25% eins og verið hefur. Eru þessar tillögur í samræmi við þær áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Jafnframt er frumvarpið í samræmi við áherslur og aðgerðir í kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem gefin var út í október 2020.

Nánar tiltekið segir orðrétt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Kvikmyndagerð hefur orðið sífellt mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi síðustu ár. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Við ætlum að styðja enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.“

Virðulegur forseti. Megintilgangur laga nr. 43/1999 er að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru og að efla þekkingu í innlendri kvikmyndagerð með samstarfi við erlent fagfólk og að byggja upp öflugan kvikmyndaiðnað á Íslandi þar sem skapandi greinar fá notið sín. Með því að laða að erlent kvikmyndagerðarfólk er unnt að þjálfa íslenskt fagfólk til sjálfstæðari verka á þessu sviði, bæta innviði kvikmyndaiðnaðarins hér á landi og síðast en ekki síst koma Íslandi, náttúru landsins og íslenskri menningu á framfæri.

Virðulegi forseti. Töluverð samkeppni er á milli landa, svæða og borga um allan heim um að fá erlenda framleiðendur til að taka upp kvikmyndir, sjónvarpsefni og fleira myndefni. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður en þær helstu eru að verkefni af þessum toga eru atvinnuskapandi, gjaldeyrisskapandi og fela í sér öfluga landkynningu sem getur skilað sér í jákvæðri ímynd og auknum tekjum af ferðamönnum ef vel tekst til.

Þeim löndum fer sífellt fjölgandi sem bjóða upp á sérstakar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og hefur hlutfall endurgreiðslu farið hækkandi á undanförnum árum í helstu samkeppnislöndum Íslands. Þannig er það víða komið upp í 35%, t.d. á Írlandi og Möltu. Skotland, Bretland og Kanada hafa einnig verið nefnd sem lönd sem við eigum í harðri samkeppni við á þessu sviði.

Í ljósi umfangs og þýðingar kvikmyndagerðar fyrir íslenskt efnahagslíf er með frumvarpinu lagt til að endurgreiðsluhlutfall vegna sérstakra stærri verkefna og verkefna til lengri tíma á sviði kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu verði hækkað úr 25% í 35% af skilgreindum framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Nær þetta sem áður segir til vel skilgreinds hóps verkefna sem teljast til stærri verkefna og eru hér til framleiðslu í að lágmarki ákveðið langan tíma. Er þar tekið mið af framangreindu orðalagi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þ.e. „stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi“. Helstu ástæður fyrir því að lagt er til að hlutfallið verði hækkað fyrir slík verkefni eru að tryggja að Ísland verði áfram samkeppnishæft sem tökustaður kvikmynda og sjónvarpsefnis, að efla þannig innlenda menningu og kynningu á sögu landsins og náttúru og að halda áfram að efla og styrkja þennan tiltekna iðnað á Íslandi og þær skapandi greinar sem honum fylgja.

Sem áður segir hefur frumvarp þetta það að markmiði að ná með skilvirkum og einföldum hætti utan um áherslur úr stjórnarsáttmála, um kvikmyndastefnu, á hærra endurgreiðsluhlutfall sem mun stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin til lengri tíma á Íslandi. Frumvarpið var unnið í samráði við starfshóp helstu hagaðila sem falið var að endurskoða endurgreiðsluhlutfall laganna en í honum sátu fulltrúar frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Kvikmyndamiðstöð, Íslandsstofu, fjármála- og efnahagsráðuneyti og frá menningar- og viðskiptaráðuneyti sem leiddi vinnuna. Mikill áhugi er á þessum áformum ríkisstjórnarinnar, bæði hér heima fyrir og ekki síður erlendis. Þannig bíða nokkur stór og áhugaverð erlend verkefni, og menn eru reiðubúnir að hefja tökur á þessu ári, eftir formlegri ákvarðanatöku stjórnvalda og umræddri lagabreytingu. Segja má að með slíkum stórum langtímaverkefnum séum við að fara yfir á næsta stig með það endurgreiðslukerfi sem við höfum verið að þróa frá árinu 1999.

Með hliðsjón af þessu var framangreindri vinnu við gerð frumvarps flýtt og hún sett í ákveðinn forgang í ljósi þeirra verkefna sem um ræðir. Ég vil árétta að brýnt er að öll viðmið séu skýr og gagnsæ í löggjöfinni þar sem einn helsti styrkleiki íslenska endurgreiðslukerfisins í alþjóðlegum samanburði hefur verið einfaldleiki þess og skýrleiki og tekur frumvarpið mið af því. Hlutfall endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem til fellur hér á landi er samkvæmt gildandi lögum 25%. Í ýmsum löndum er það hlutfall 35%. Eru það lönd sem Ísland á í mestri samkeppni við í að laða til sín stærri kvikmynda- og sjónvarpsverkefni til lengri tíma.

Með frumvarpi þessu er lagt til að afmörkuð verkefni sem uppfylla ákveðin skýr skilyrði, sem fram koma í lögunum, eigi rétt á 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Með vísan til áherslna í stjórnarsáttmála er með frumvarpinu lagt til að þrjú skýr viðmið greini á milli hvort verkefni eigi rétt á 25% eða 35% endurgreiðsluhlutfalli. Til að eiga rétt á 35% endurgreiðsluhlutfalli þurfa öll þrjú skilyrði að vera uppfyllt. Skilyrðin eru sem hér segir:

Lágmarksframleiðslukostnaður: Lagt er til að fyrsta viðmiðið verði tengt við skilgreindan framleiðslukostnað sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Með því að setja fram lágmarksfjárhæð framleiðslukostnaðar er skilið á milli „stærri“ og „smærri“ verkefna, samanber áherslur úr stjórnarsáttmála. Lagt er til að miðað sé við að framleiðslukostnaður sem fellur til við framleiðslu viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi sé að lágmarki 200 millj. kr.

Verkefni til lengri tíma á Íslandi: Í öðru lagi er lagt til að til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu sé gerð krafa um að framleiðsluverkefni verði unnið til lengri tíma hér á landi þar sem tökudagar á Íslandi verði að lágmarki 30. Heimilt er að telja eftirvinnslu verkefnis á Íslandi með í þeirri tölu. Með tökudögum er átt við þá daga þegar raunveruleg kvikmyndataka vegna verkefnis fer fram á tökustað. Með eftirvinnslu er átt við þá vinnu sem á sér stað í kvikmynda- eða sjónvarpsverkefni eftir að tökum er lokið og snýr að úrvinnslu og frágangi á hinu upptekna efni, t.d. klippingu, hljóðvinnslu, tæknilegum viðbótum og myndvinnslu.

Fjöldi starfsmanna sem vinna að verkefni: Lagt er til að þriðja skilyrði til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu verði að fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu sé að lágmarki 50. Er með því greint á milli „stærri“ og „smærri“ verkefna með hliðsjón af almennum efnahagslegum og þjóðhagslegum áhrifum verkefna. Hér er átt við starfsfólk sem er skattskylt á Íslandi enda teljast samkvæmt lögunum laun og verktakagreiðslur eingöngu til framleiðslukostnaðar séu þau skattlögð hér á landi. Erfitt er að leggja mat á hversu mörg verkefni munu falla í hóp 35% endurgreiðslna verði frumvarpið að lögum, en þó er ljóst að mikill áhugi er fyrir hendi hjá ýmsum sem eru með til skoðunar stærri verkefni og til lengri tíma, t.d. sjónvarpsseríur.

Í fjármálaáætlun 2023–2027 er gert ráð fyrir að endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hækki um 300 millj. kr. og mun það að einhverju leyti koma til móts við þessa lagabreytingu. Í greinargerð með frumvarpinu er nánar vísað til skýrslna sem unnar hafa verið á greiningu á hagrænum áhrifum endurgreiðslukerfisins.

Virðulegur forseti. Upphafleg áform gerðu ráð fyrir að frumvarp þessa efnis yrði lagt fram á haustþingi 2022. Í ljósi áhuga erlendra aðila á þessari lagabreytingu og stórra verkefna sem eru í biðstöðu er mikið til þess unnið að frumvarpið verði afgreitt sem lög á Alþingi nú fyrir þinglok, á vorþingi. Ég tel að um sé að ræða mikið framfaramál og að með þessum breytingum á endurgreiðslukerfi okkar séum við að færa okkur yfir á næsta stig sem geri okkur kleift að grípa þau tækifæri sem bíða okkar við að búa til alþjóðlega samkeppnishæfan kvikmyndaiðnað á Íslandi í fremstu röð með þeim fjölmörgu jákvæðu áhrifum sem fylgja.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.