Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[16:11]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því mjög að við séum að efla mikilvæga atvinnugrein og langar að ræða nokkrar hliðar kvikmyndagerðar hér í dag. Þau eru mörg og fjölbreytt störfin sem skapast með öflugri kvikmyndagerð en ekki eru síður mikilvæg þau fjölmörgu afleiddu störf í þjónustu sem skipta ekki síst landsbyggðina gríðarlegu máli. Sem þingmaður VG fæ ég ítrekað spurninguna: Hvað er þetta „eitthvað annað“ sem við eigum að vera að gera? Þegar við horfum á iðnað, sjávarútveg og landbúnað er ljóst að þessar stoðir atvinnulífsins eru mikilvægar en með breyttri heimsmynd og áherslum nútímans er það einmitt þetta „eitthvað annað“ sem skiptir svo miklu máli. Fjölbreytileiki starfa, nýsköpun og störf byggð á tækni og hugmyndaauðgi eru einmitt þetta „eitthvað annað“ og þar kemur kvikmyndagerð sterk inn.

Þó að við í þingflokki VG styðjum þetta mál heils hugar og viljum sjá greinina blómstra er mikilvægt að halda ákveðnum áherslum til haga og langar mig sérstaklega að nefna kynjahalla sem áratugum saman hefur einkennt greinina. Þó að það stefni í rétta átt þarf að standa sérstaklega vörð um konur í kvikmyndagerð. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hlutfall kvenna sem eru starfandi við kvikmyndagerð sé 30%, og þá eru 70% karlar. Það þarf auðvitað að leiðrétta.

Annað sem mig langar til að nefna er að eins mikilvægur þáttur og kvikmyndagerð er — eins mikilvægt og það er að standa vörð um íslenska kvikmyndagerð og líka að greiða götu erlendra kvikmyndafyrirtækja í að koma til landsins, til að skapa hér störf og taka upp myndir og auglýsingar — þá er pottur víða brotinn í þessum bransa. Mig langar sérstaklega að nefna tvo þætti. Eins og við höfum séð í greinum sem stækka hratt og eru að verða öflugar og mjög mikilvægar fyrir atvinnulíf okkar, og langar mig að nefna ferðaþjónustuna sérstaklega, er mikil hætta á því að eitthvað misjafnt geti átt sér stað. Þess vegna langar mig að leggja áherslu á opið bókhald og að öllu sé fylgt sérstaklega vel eftir. Það kemur inn á hinn punktinn sem mig langaði til að ræða og það eru réttindi starfsfólks í kvikmyndagerð. Ég þekki ágætlega til í þessum geira og aftur og ítrekað hef ég orðið vitni að því að vinnuréttindi eru hreinlega brotin. Ekki er passað upp á vinnutíma og slysatryggingum er ábótavant. Það er ótrúlega margt sem við höfum byggt upp í íslenskri vinnulöggjöf sem stenst ekki alveg skoðun ef við rýnum í kvikmyndabransann. Mér fannst mikilvægt að koma hingað upp og minnast á þetta.

Þegar við erum að styðja við kvikmyndagerð og auka greiðslur og standa vörð um greinina fjárhagslega þá verðum við líka að huga að því að það séu ekki bara topparnir, ekki bara eigendur stærstu fyrirtækjanna, sem njóti góðs af því heldur er þetta gríðarlega fjölbreyttur hópur starfsfólks. Þetta eru statistar, sminkur, alls konar fólk, fólk sem sér um veitingar. Það er verið að gera allt mögulegt í þessum störfum. Þau eru gríðarlega mörg og fjölbreytt og það hefur verið dálítil stéttaskipting innan þessa geira. Við þurfum að halda utan um það að öllu fólki sé tryggt almennilegt starfsumhverfi og passa upp á allar reglur um öryggi og vinnuréttindi fólks. Með stuðningi eins og við erum að veita hér þarf að gæta þess að hann nái til allra sem starfa í kvikmyndagerð en ekki bara til nokkurra hákarla í bransanum.

Mig langar að lokum að lesa upp fyrirvara sem VG gerði við afgreiðslu málsins, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að samhliða uppbyggingu í þessari mikilvægu list- og iðnaðargrein þurfi að tryggja að starfsskilyrði og starfsumhverfi kvikmyndagerðarfólks og annarra þeirra sem starfa við kvikmyndagerð sé sambærilegt því sem gerist á almennum vinnumarkaði. Þá er mikilvægt að réttindi starfsfólks í kvikmyndageiranum, svo sem tryggingar, veikindaréttur, launað orlof sem og öryggi, séu tryggð.“

Þetta langaði mig að segja. Mig langaði að ítreka mikilvægi þessa máls og að við styðjum það heils hugar að það nái í gegn. Ég vek hins vegar athygli á því að við þurfum að vanda til verka og standa með öllum sem starfa í kvikmyndagerð.