Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[16:17]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Við ræðum hér stjórnarfrumvarp um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Ég fagna þessu máli gríðarlega enda er þetta mál sem ég talaði mig hása um í þessum ræðustól á síðasta kjörtímabili. Þetta er mér algert hjartans mál og þetta er hjartans mál fyrir fjölmarga aðra sem hafa barist fyrir þessu á síðustu árum. Og, frú forseti, það er engu líkara en að ríkisstjórnin hafi hlustað og tekið tiltali í þessum málaflokki, loksins. Kallað hefur verið eftir því í mörg ár að Ísland yrði alþjóðlega samkeppnishæft í kvikmyndagerð. Þetta hefði auðvitað átt að gera á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir og það voru þó nokkur lönd sem höfðu hugrekki til að gera það þá, t.d. Kanaríeyjar og Írland. Við misstum einmitt fjöldann allan af verkefnum á því tímabili og þar af leiðandi marga milljarða sem hefðu annars komið inn í þjóðarbúið og ekki hefði verið vanþörf á því á meðan á heimsfaraldurinn reið hér yfir. Sum lönd gengu jafnvel enn lengra. Spánverjar hækkuðu sitt hlutfall upp í 50%. Ég get líka nefnt að mynd Wills Ferrells, Eurovision, sem ég hugsa að flestir kannist við — einungis 10% af henni voru tekin upp hér á Íslandi, jafnvel þó að sögusviðið sé Ísland í meira en helmingi myndarinnar.

Það er ánægjulegt að sjá þetta gerast. Eins og hv. þm. Jódís Skúladóttir kom inn á þá held ég að fæstir átti sig í raun á því hversu gríðarlega atvinnuskapandi kvikmyndagerð er. En þegar maður horfir á kreditlistann í lok kvikmyndar sér maður hversu ofsalega margir koma að einni 90 mínútna kvikmynd. Þarna eru störf fyrir leikara og leikstjóra. Það þarf að sminka. Það þarf rafvirkja, pípara og það þarf að gefa fólki að borða. Það þarf bílstjóra. Það eru raunverulega fá störf sem koma ekki að kvikmyndagerð að einhverju leyti, tæknistörf o.s.frv. Þetta er, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, öflug leið til að markaðssetja landið á jákvæðan hátt og án þess að leggja þurfi í beinan kostnað. Í kringum 40% ferðamanna segjast koma til Íslands vegna þess að þeir hafi séð Ísland í sjónvarpsþætti eða kvikmynd. Íslensk náttúra er einstök á heimsmælikvarða og er fyrirséð að aðsókn í óspillta náttúru Íslands kemur bara til með að aukast á næstunni.

Sú orðræða hefur aðeins truflað framgang þessa máls síðustu misseri að þetta fyrirkomulag sé ekki verjandi vegna þess að svo miklir fjármunir fari úr ríkissjóði, skattpeningar sem fari úr landi. Þessi orðræða hefur byggst á misskilningi sem hæstv. menningarmálaráðherra hefur greinilega tekist vel að leiðrétta, bæði við ríkisstjórnarborðið sem og í almennri umræðu. Það er ekki beinn kostnaður sem hlýst af þessu. Peningurinn þarf fyrst að koma inn í hagkerfið og vera hér í níu mánuði, hartnær ár, og flæða um samfélagið. Fjármunirnir flæða hér um samfélagið og það er alveg hægt að gera sér í hugarlund hvað það hjálpar mikið á meðan það fjármagn er hérna. Svo tekur hvert verkefnið við af öðru og koll af kolli. Endurgreiðslukerfið er áhættulítið fyrirkomulag. Fjármagnsstreymið kemur inn í landið og endurgreiðslurnar eru háðar mjög ströngum samningsskilyrðum. Þetta er, með leyfi forseta, algjör „no-brainer“.

Vandað hefur verið til verks við vinnu og undirbúning þessa máls og það er líka mjög ánægjulegt að því hafi verið flýtt, sé lagt fyrir hér á vorþingi. Við megum ekki við því að missa fleiri stór verkefni til nágrannalanda okkar. Við höfum ekki verið alþjóðlega samkeppnishæf í kvikmyndagerð á Íslandi. Mér heyrist líka vera þverpólitísk sátt um þetta mál og svo á að vera, að mínu mati. Það er eiginlega ekki hægt að finna ágalla á þessu. Þetta er alveg frábært fyrir okkar litlu þjóð, uppbyggilegur atvinnuvegur, iðnaður. Þetta hefur áhrif á orðspor Íslands. Þetta eru örugg störf, 9.000 manns geta t.d. komið að málum, ég held ég fari rétt með það, forseti. Í löngum seríum skapast allt að 9.000 störf og fyrir hvert starf á setti eru afleidd störf u.þ.b. tvö.

Forseti. Ég hefði viljað sjá þetta gert miklu fyrr og hægt hefði verið að gera þetta á síðasta kjörtímabili en við förum víst ekki aftur í tímann. Ég vil óska hæstv. menningarmálaráðherra innilega til hamingju með þetta mál, að hafa haft veg og vanda af því og hugrekki til að fylgja því eftir og í gegn. Þetta er þjóðþrifamál fyrir Ísland. Til hamingju við öll.