Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[16:24]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta mál, mjög eindregið. Ég hef velt þessum málum fyrir mér lengi, hef unnið lengi í grein sem er nátengd kvikmyndaiðnaðinum, í fjölmiðlum. Ég þekki vel samlegðaráhrifin sem eru á milli þessara tveggja greina og út frá þeim sjónarhóli má alveg nefna að þetta frumvarp, þessi fyrirhugaða lagasetning, mun styðja við íslenska fjölmiðla að því leyti til að þetta stækkar pottinn. Þetta eru nátengd fyrirtæki sem oft vinna í verkum hvert annars. Þetta býr til stærri hugmyndapott, bæði fyrir íslenska fjölmiðla og íslenska kvikmyndagerð, og full ástæða er til að halda því til haga hér, þegar við ræðum þetta mál, að afleiddu áhrifin af þessu eru miklu víðtækari en við tölum oft um þegar við tölum um íslenska kvikmyndaframleiðslu og íslenska kvikmyndagerð.

Þetta er mjög atvinnuskapandi, myndi ég ætla, og ég fagna því mjög ef það liggur fyrir að hingað til lands séu að koma stór verkefni og þá mögulega sem bein afleiðing af þessum áformum. Það er gríðarlegur fjöldi sem vinnur við þessi stærri verkefni. Eins og kom fram í ræðu hér áðan þá snýst þetta ekki bara um kvikmyndagerðina. Þetta er t.a.m. mikill stuðningur úti á landi við ferðaþjónustu. Það er mikill stuðningur við minni sveitarfélög þegar stór tökuteymi þurfa að sækja aðföng og þjónustu þangað og þannig mætti áfram telja og mjög lengi. Þetta nær því auðvitað langt út fyrir kvikmyndagerðina, jákvæðu áhrifin, hliðaráhrifin, og það er auðvitað hugsunin á bak við það og ástæðan fyrir því að þjóðir heims eru með ívilnanakerfi til að reyna að lokka til sín verkefni af þessu tagi.

Á það hefur verið þrýst af hagaðilum nokkuð lengi að fara þessa leið. Ég var alltaf svolítið undrandi á síðasta kjörtímabili þegar ég varð var við tregðu fyrrverandi ráðherra málaflokksins í þessum efnum, sem mér fannst stundum vera, og var þá gjarnan vísað til þess að endurgreiðslan væri 25% og kannski væri full ástæða til þess að greinin stæði á eigin fótum. En það er einmitt með ívilnunum af þessu tagi sem við gerum greininni kleift að standa á eigin fótum. Þetta er samkeppnisumhverfi og þótt við búum yfir frábærri náttúru og höfum alla innviði til að taka á móti verkefnum af þessu tagi og fagfólk sem getur ýtt undir og stutt við og það allt saman þá leitar fjármagnið auðvitað á staði þar sem hagkvæmast er að vera. Það munar gríðarlega miklu um 25% eða 35% þegar að því kemur. Þetta er spurning um að fá inn verkefni sem annars kæmu ekki inn. Það má því leika sér með tölur um kostnað og útgjöld og annað fyrir ríkissjóð í þessu efni eða tapaða fjármuni ef menn vilja fara út í það.

Það er verið að setja nokkur skilyrði til að skilgreina hvers konar verkefni falla þarna undir og mér hefur sýnst, eftir að hafa farið yfir þetta, að þau séu flest skynsamleg, a.m.k. grunnhugsunin í þeim. Ef það er þannig að við meðferð málsins þurfi að sníða einhverja agnúa af þá gerum við það auðvitað og bætum þetta góða mál með því. Til dæmis er verið að tala um, hvað varðar lágmarksframleiðslukostnað, að þar sé miðað við 200 millj. kr. Í sjálfu sér þarf það ekki að vera heilög tala af minni hálfu en það verður auðvitað forvitnilegt að vita hvað greinin sjálf segir um það. Þetta er a.m.k. ágætisviðmið, finnst mér. Það er talað um 30 tökudaga og eftirvinnslan er með í þeirri tölu, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt upp á það hvernig greinin getur þá nýtt sér stuðninginn hér innan lands, þ.e. þá fellur þetta ekki bara á hina eiginlegu tökudaga heldur líka á eftirvinnsluna, sem er gríðarlega stór partur af þessu, tímafrek og kostnaðarsöm. Það er þá atvinnuskapandi fyrir okkar fólk hér á Íslandi sem vinnur í eftirvinnslu og þeir eru auðvitað mjög margir. Svo er talað um fjölda starfsmanna, sem sé að lágmarki 50. Ég segi það sama og með kostnaðinn, þetta er ekki heilög tala að mínu viti, og fínt að heyra sjónarmið greinarinnar um það. En þetta hljómar í það minnsta bara nokkuð skynsamlegt. En eins og ég segi: Mér finnst full ástæða til að hlusta eftir því sem greinin sjálf segir um þetta og ef breyta þarf einhverju til að gera þetta enn þá skilvirkara og betra þá styð ég það auðvitað heils hugar.

Það er eitt í þessu sem er svolítið viðkvæmt og það eru jafnræðissjónarmiðin. Mér finnst mjög eðlilegt að við spyrjum okkur alltaf þessarar spurningar: Af hverju tökum við eina grein og erum með slíkar ívilnanir í henni frekar en í einhverjum öðrum greinum? Það er bara partur af því ferli sem við þurfum að fara í gegnum að spyrja okkur þeirrar spurningar. En ég held að við séum að svara þessu með því að benda á afleiddu áhrifin af því að fara í aðgerðir af þessu tagi. Við erum að fá hingað inn verk sem annars kæmu ekki. Við erum að fá í gegnum þetta stuðning við margs konar atvinnustarfsemi, ekki bara kvikmyndagerðina heldur öll þessi afleiddu störf sem ég nefndi hér áðan. Ég nefndi ferðaþjónustuna og þetta styður við byggðir með óbeinum hætti því að atvinnutækifæri skapast út um landið allt. Það eru því rosalega mörg rök sem hníga að því að þessi grein eigi að njóta þessara ívilnana þó að mér finnist sjálfsagt mál að ræða þetta líka út frá jafnræðissjónarmiðum og hafa þau í huga.

Eins og ég segi þá er það þannig að kvikmynda- og þáttaframleiðendur hafa augastað á Íslandi, m.a. út af náttúrunni. Það er hún sem lokkar fólk að. Það er eitt sem er svolítið áhugavert að velta fyrir sér í því samhengi, þ.e. að ef það er dýrt fyrir þessa aðila að koma í íslenska náttúru eða dýrara þá er hægt að bregða á það ráð af þeirra hálfu að takmarka umsvif sín hér með því að taka upp náttúruna en hafa alla aðra vinnslu annars staðar. Fyrir vikið yrði minna fjármagn eftir í íslensku hagkerfi. Mér finnst þetta mál svolítið girða fyrir það. Þetta þýðir að það eru fleiri sem koma hingað inn, meiri fjármunir, og það myndi auðvitað ekki gera það ef við myndum ekki elta önnur lönd sem við erum í samkeppni við á þessu sviði. Það er auðvitað falleg náttúra víðar en á Íslandi en hún er vissulega einstök hér. Við þurfum samt að hafa fyrir því að búa til skilyrði til þess að menn sjái sér hag í því að koma hingað og njóta náttúrunnar og sýna afraksturinn í kvikmyndum og þáttum.

Síðan má nefna landkynninguna í samhengi við þetta. Hún er auðvitað umtalsverð eins og komið hefur fram við meðferð málsins og ítrekað verið bent á þegar við höfum verið að ræða þessi mál úti í samfélaginu. Hafandi fylgst vel með sjónvarpsþáttaröðinni Game of Thrones fylgdist ég líka mjög vel með allri umræðu í fjölmiðlum erlendis um hana og hversu mikla athygli íslensk náttúra og íslensk menning fékk í raun og veru í gegnum þá þáttaröð. Þetta voru einhverjar sex til átta seríur. Fólk kom hér ár eftir ár, tugir milljóna ef ekki hundruð sem horfðu á. Það segir sig sjálft að þetta skilar auknum áhuga á landi og þjóð og þar af leiðandi, þegar við erum með þessa ívilnun til að lokka hingað fólk, erum við í og með líka að fjárfesta með óbeinum hætti í landkynningu án þess að fara út í það að vera að auglýsa landið með beinum hætti með tilheyrandi kostnaði. Ég þarf svo sem ekkert að hafa mörg orð um þetta. Þetta er eitthvað sem við þekkjum öll og er rosalega stór röksemd fyrir því, að mínu mati, að styðja þetta mál.

Mig langar að árétta það sem ég sagði hér í upphafi. Það er þannig að hefðbundinn íslenskur fjölmiðlarekstur og kvikmyndagerð af þessu tagi eru náskyld fyrirbæri. Það er fullt af litlum fyrirtækjum, meðalstórum fyrirtækjum og stórum fyrirtækjum í þessum bransa sem þjónusta bæði hefðbundna íslenska fjölmiðla, jafnvel fréttavinnslu, og svo kvikmyndagerð, fyrirtæki sem sinna þá báðum þáttum. Þar af leiðandi er þetta mál óbeinn stuðningur við íslenska fjölmiðla í leiðinni og mér finnst að við þurfum að halda því aðeins á lofti. Við erum alltaf að velta því fyrir okkur að staða íslenskra fjölmiðla gæti svo sannarlega verið betri. Þetta er a.m.k. einn anginn af því að búa til sterkari starfsvettvang undir þá. Þetta eykur dýnamíkina, þetta eykur hugmyndaauðgina sem er í greininni. Það eru þá fleiri og stærri aðilar að vinna. Fyrirtækin eru kröftugri og eru þá líka að þjónusta fjölmiðlana, þannig að það vinna allir í þeirri jöfnu, finnst mér.

Ég tek undir það sem hv. þm. Jódís Skúladóttir nefndi hér áðan, það er sjálfsagt að nota tækifærið, þegar við erum að ræða þessi mál, til að tala um stöðu kvenna í kvikmyndagerð. Það hefur hallað mjög mikið á þær eins og við þekkjum. Vonandi verða það enn ein jákvæð afleidd hliðaráhrif af þessu máli að staða kvenna vænkist mögulega innan geirans. Sömuleiðis vil ég taka undir þessi almennu orð um starfsumhverfið, réttindi, kjör og kaup og allt þetta, að þannig sé búið um hnúta að það sé allt í lagi. Það á auðvitað við þegar við erum að taka ákvarðanir um umhverfi allra atvinnugreina hér. Ég ætla að fagna því að þetta mál skuli vera komið fram og ég styð það heils hugar.