Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[16:35]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Rétt eins og aðrir hv. þingmenn fagna ég því að þetta frumvarp sé hér fram komið og styð það heils hugar. Mig langar, rétt eins og aðrir hv. þingmenn, að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa lagt það fram því að það er mjög mikilvægt að við höldum áfram að efla þennan mikilvæga iðnað hér á landi. Það er ekki bara landið okkar og náttúran sem hefur skapað sér góðan orðstír heldur líka það fólk sem vinnur við þennan iðnað hér á landi. Það er því, eins og bent hefur verið á, mikilvægt að umhverfið hér á Íslandi sé samkeppnishæft.

Það er mikill misskilningur, sem virðist oft gæta hjá fólki, að með þeim endurgreiðslum sem gefnar eru af þeim kostnaði sem hlýst hér á landi sé ríkið einhvern veginn að tapa peningum. Það er nefnilega þannig að við fáum þennan pening margfaldan til baka. Við fáum hann ekki bara í launum fólks hér eða sköttum, virðisaukaskatti af vörum sem verið er að kaupa eða ýmsu öðru, heldur líka, eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson benti á áðan, í aukinni ferðamennsku. Já, það er nefnilega þannig að fólk gerir sér sérstakar ferðir til að sjá staðina sem það hefur séð í bíómyndum eða sjónvarpsþáttum. Þau okkar sem höfum ferðast víða um heiminn og jafnvel búið víða um heiminn fáum endalaust spurningar: Hvar er þessi foss sem sást í þessari mynd? Hvar er þetta fjall sem sást í þessum sjónvarpsþáttum? Upphæðirnar sem þessir ferðamenn eyða síðan hér á landi eru margfalt ef ekki hundraðfalt það sem við endurgreiðum.

Það er mikilvægt að við hugsum um þessa hluti sem fjárfestingar í því að skapa tækifæri, skapa iðnað og styrkja skapandi greinar hér á landi. Við tölum síðar í dag um mjög svipað kerfi tengt nýsköpunarfyrirtækjum þar sem verið er að endurgreiða rannsóknar- og þróunarkostnað nýsköpunarfyrirtækja á alveg sama máta og hér. Þetta er módel sem virkar og módel sem við ættum að vera opin fyrir að vera með á fleiri sviðum en bara þessum tveimur.

Mig langar að rifja það upp að fyrir 14 árum, sennilega er svo langt síðan, vann ég hjá Microsoft. Hingað til lands kom þá fulltrúi frá Microsoft sem sá um að gera öll gagnaver þeirra í heiminum. Þeir vildu kaupa mikið af orku, þeir vildu nýta einn af nýju sæstrengjunum sem þá var kominn til landsins, meira og minna allan. Þeir voru búnir að hugsa hvernig þeir gætu verið með gagnaverið sem næst virkjununum til þess að tapa sem minnstu af rafmagninu og þetta átti að skapa hundruð starfa. Allt virkaði vel, nema það var annað land sem kom og bauð endurgreiðslu, í því tilfelli af sköttum, til ákveðinna ára. Þarna töpuðum við því að Ísland hefði orðið miðpunktur skýjalausna Microsoft í Evrópu. Þegar talað var við stjórnvöld hér á landi á þeim tíma var enginn skilningur fyrir því að þetta væri fjárfesting sem myndi skapa tækifæri til lengri tíma. Það er gott að við erum byrjuð að átta okkur á því og ríkisstjórnin er byrjuð að átta sig á því — og þá er ég ekki að tala um hæstv. ráðherra sem situr hér heldur hina hæstv. ráðherrana sem sitja með hæstv. ráðherra í ríkisstjórn — að þetta eru fjárfestingar sem skila sér.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að við skoðum vel vinnuumhverfi og öryggismál og annað sem er í kringum þetta. Þar sem ég veit að við í atvinnuveganefnd ætlum að reyna að afgreiða þetta mál sem hraðast þá hvet ég til þess að nefndin og ráðuneytið vinni vel saman við að koma með einhverjar viðbætur við frumvarpið fyrir haustið. Ég veit að þetta átti upphaflega að koma í haust en núna er verið að flýta þessu. Kannski er hægt að bæta við þeim hlutum sem hv. þingmaður Vinstri grænna nefndi hér áðan. Kannski er hægt að vinna í því yfir sumarið, gefa okkur aðeins betri tíma til þess. Ég veit að við í atvinnuveganefnd ætlum að vinna þetta hratt. Við ætlum að hafa stuttan umsagnartíma þannig að ef fólk í kvikmyndaiðnaðinum hér á landi er að fylgjast með verið þá tilbúin að koma með umsagnirnar eins hratt og hægt er.

Það er mikilvægt að við nýtum þetta tækifæri, að við nýtum það núna. Þessi lög hafa verið til frá 1999 og hafa samt í heiti orðið „tímabundið“ og það er alltaf verið að endurnýja þau. Það eru reyndar komin 23 ár núna síðan þetta „tímabundið“ var sett inn. Mig langar aðeins að fá svör sem ráðuneytið getur kannski komið með til atvinnuveganefndar varðandi það hvort núverandi gildistími, sem er til 2025, sé nægilega langur fyrir þau stóru verkefni sem eru mögulega í pípunum vegna þess að ef stóru fyrirtækin sjá að það verður afsláttur fyrstu þrjú árin en kannski ekki eftir það — hvort við þurfum að laga það í leiðinni, eins og gert var núna síðast.

Ég nefndi áðan gagnaver og tækni. Við skulum alveg átta okkur á því að tæknin í kvikmyndaiðnaði er að breytast hratt. Fallega náttúran okkar er tekin upp núna en það getur alveg eins verið að eftir 5–10 ár komi hún bara teiknuð úr einhverri tölvu og að fólkið sé jafnvel líka orðið teiknað. Það er allt að þróast mjög hratt í þessu. Við skulum því vona að við getum nýtt það að fá þennan iðnað hingað inn áður en tölvurnar taka við og allar bíómyndir verða á Íslandi en ekkert tekið upp hér heldur gert með tæknilausnum. En eins og ég sagði styð ég heils hugar við þetta frumvarp og mun tryggja að við vinnum það hratt og vel í atvinnuveganefnd.