Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[16:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hér hafa verið fluttar margar ágætisræður auk ræðu hæstv. ráðherra sem er flutningsmaður málsins. Ég vil byrja á að segja að ég styð þetta mál. Ég tel að þetta sé að mörgu leyti gott skref og nauðsynlegt til að styrkja enn betur samkeppnishæfni okkar innan kvikmyndagerðar. Það eru auðvitað þök og mörk og útfærslur sem bíður nefndarinnar að skoða og læt ég nefndarmönnum atvinnuveganefndar það eftir. En í heildina finnst mér þetta gott mál.

Hér hafa verið haldnar ágætar ræður þar sem farið hefur verið vel yfir þau tækifæri sem af þessu skapast, þ.e. þessa afleiddu hluti innan atvinnulífsins, efnahagslífsins, ferðaþjónustunnar og afmarkaðri þátta, og það er auðvitað allt rétt og satt. En mig langar aðeins að ræða um hinn endann. Það verður nefnilega engin vara til af sjálfu sér. Hún á sér uppsprettu í hugmynd, þekkingu, framleiðslutækjum og verður svo vara á endanum. Það sama á við um listgreinar. Og af því að við erum að tala um kvikmyndagerð er kannski engin stofnun hér á landi betri útungunarstöð fyrir kvikmyndaframleiðslu en Listaháskóli Íslands þar sem allar þær greinar sem til þarf til að búa til góða kvikmynd eru kenndar. Kvikmyndagerð, búningar, leikmyndir, arkitektúr, hönnun, myndlist og ekki síst tónlist — allt þetta kemur saman í einu sköpunarverki á endanum og að þessu þarf að hlúa.

Við erum með einn listaháskóla, sem er sjálfseignarstofnun, sem er eini möguleikinn fyrir ungt fólk sem vill læra þessar greinar hér. Það er þess vegna ekki gott að það skuli þurfa að greiða mörgum sinnum meira í skólagjöld í þeim skóla en í öðrum háskólum. Af hverju nefni ég þetta? Jú, vegna þess að við getum ekki bara leyft okkur að treysta á guð og lukkuna og ætla að taka allan samfélagslegan ágóða sem af kvikmyndagerð hlýst. Við eigum auðvitað líka að búa þannig um hnútana að hér verði til hæft listafólk sem getur skapað sem bestar kvikmyndir. Þetta mál er mjög rökrétt skref sem við höfum verið að stíga smátt og smátt frá árinu 1990 og til dagsins í dag, með þessu frumvarpi. Við höfum áttað okkur betur á því að við þurfum að byggja atvinnulífið okkar á miklu fjölbreyttari stoðum en við höfum gert og við eigum í auknum mæli að byggja það á öðru en frumframleiðslu og vinnslu náttúruauðlinda sem eru mikilvægar og verða mikilvægar en eru miklu meiri takmörkunum háðar en sú auðlind sem hugvitið er, eina auðlindin sem er ótæmandi. Við erum ofan í kaupið stödd í miðju hinnar blessuðu fjórðu iðnbyltingar sem er að gjörbreyta allri tilveru okkar. Talað er um að í náinni framtíð verði meira en helmingur allra starfa unninn án beinnar aðkomu mannsins en listsköpun og kvikmyndagerð verða aldrei til án þess að mikið hugvit sé til staðar.

Á mínum stutta þingferli hef ég fimm sinnum lagt fram þingsályktunartillögu um myndlistarnám fyrir börn og unglinga en myndlistarnám er að mörgu leyti mjög góður grunnur að öllum þessum skapandi greinum sem við tölum svo vel um á hátíðarstundum. Myndlistarnám er í raun grunnur fyrir kvikmyndagerðarfólk, fyrir arkitekta, fyrir tískuhönnuði og alla þá hluti. Það er ekki þannig að allir sem stunda myndlistarnám sem börn og unglingar verði myndlistarfólk heldur er það bara góður grunnur fyrir alls konar sjónlistir. Við höfum heldur betur séð hvað það hefur gefið íslenskri þjóð að hafa stigið þau farsælu skref sem stigin voru með lögum um tónlistarskóla í landinu þar sem öllum börnum og unglingum meira eða minna alls staðar á landinu var gefinn kostur á góðri tónlistarmenntun. Fyrir vikið er 19 ára gamall einstaklingur sem hefur notið þess að vera í tónlistarskóla í miklu betri stöðu en sá sem ætlar að vinna innan sjónlistar, hann er jafnvel nánast fullnuma á hljóðfæri, þarf kannski að dýpka sig eitthvað en getur fundið sér sínar slóðir eða veit miklu betur hvaða leið hann vill fara. En þessi tilviljunarkennda menntun í myndlist verður til þess að einstaklingur um tvítugt er í raun á byrjunarreit. Hann á eftir að koma sér upp þeirri grunnfærni sem hann ætti að vera búinn að ná fyrir löngu til þess að geta ákveðið hvaða leið hann vill fara innan sjónlista. Vil ég fara í kvikmyndagerð eða fara í myndlist áfram? Vil ég fara í arkitektúr eða hönnun o.s.frv.? Ég held að við þurfum að hlúa miklu betur að þessu.

Við sjáum það nú þegar hvað skapandi greinar leggja til samfélagsins. Því til stuðnings er nægilegt að benda á rannsóknir Ágústs Einarssonar, doktors í hagrænum áhrifum skapandi greina, sem hefur sýnt fram á að skapandi greinar eru sífellt mikilvægari þáttur í efnahagslífi okkar og getur auðvitað, eins og margoft hefur verið nefnt í fyrri ræðum, stutt við aðrar greinar og auglýst land okkar og þjóð. Ástæðan fyrir því að ég tek þennan útúrdúr er sú að það er búið að tala svo mikið um það hvað við getum fengið út úr þessu. En ég vil koma inn á það hvað við þurfum að gera til þess að styrkja þetta enn betur og það er að hlúa að námi ungs fólk, og líka fullorðinna, innan skólakerfisins, og að lokum í Listaháskóla Íslands.

Þetta eru ekki innantómar vangaveltur. Það kemur fram í könnun mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 2017 að verulegur misbrestur er á því hvernig skólar ráðstafa kennslutímum til list- og verkgreina, sumir jafnvel engum tíma í 8. til 10. bekk. Við sáum það líka í kjölfar hrunsins, þegar að kreppti, að þá voru það helst þessar greinar sem voru olnbogabörn og var ekki sinnt nægilega vel. Það er auðvitað í hróplegri mótsögn við þau stóru og fallegu orð sem við notum þegar við erum að dásama gildi þessara hluta. Um leið og við stígum þetta skref og nýtum okkur þá kosti sem af því hljótast fyrir listgreinina sjálfa en líka fyrir samfélagið allt þá skuldum við listafólkinu kannski það að koma markvissara að stuðningi við þau. Hér hefur verið talað um iðngreinar, hér hefur verið talað um mikilvægar atvinnugreinar, hér hefur verið talað um ferðaþjónustu, hér hefur verið talað um alla mögulega hluti sem allir eru sannir og réttir, en við skulum heldur ekki gleyma því að kvikmyndagerð, alveg eins og aðrar listgreinar, er auðvitað mjög mikilvæg í sjálfu sér. Það skiptir fyrst og fremst máli, ef við ætlum að fóta okkur á þessum nýju tímum, þar sem landamæri skipta sífellt minna máli, þar sem fjarlægðir skipta engu máli, þar sem ungt fólk getur valið að búa hvar sem er í heiminum, stunda nám og ala upp börnin sín, það skiptir heldur betur máli að við búum þannig um hlutina að fólk hafi yfir höfuð áhuga á að búa í þessu landi. Ekki höfum við veðrið til að lokka þau með, þó að það sé ágætt í dag.

Um leið og ég endurtek að Samfylkingin mun styðja þetta mál og telur að það sé gott og um leið og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um þá möguleika sem í þessu felast og það gagn sem þetta gerir fyrir atvinnulífið vil ég hvetja okkur til að fara í alvöru að skoða hvernig umhverfi við búum því unga listafólki sem er að stíga sín fyrstu skref í þessum greinum, og líka þeim sem hafa jafnvel verið lengi í þessu. Það má segja að margt listafólk á Íslandi sé frábært, íslenskri þjóð til gagns og til vegsauka þrátt fyrir aðkomu stjórnvalda frekar en vegna aðkomu stjórnvalda. Spýtum í lófana þegar kemur að menntakerfinu og búum í framhaldinu til enn þá betri list í framtíðinni, bæði á sviði kvikmynda og annarra greina.