Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[17:04]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir sína greinargóðu ræðu hér og ég tek undir með honum. Við í Flokki fólksins erum öll einhuga um að þetta er hið besta mál enda hef ég tekið þátt í að ota því áfram um nokkurra ára skeið. Dropinn holar steininn. Ef maður talar rétt og gott mál til stjórnmálamannanna munu þeir fyrr eða síðar opna eyrun og hugann og hjartað og við sjáum gott dæmi um það hér. Ég vil óska hæstv. viðskipta- og menningarráðherra alveg sérstaklega til hamingju, þetta er gleðidagur fyrir hana og viðbrögðin öll á einn veg. Liljan blómstrar hér fyrir mátt daggarinnar og sólarinnar og megi hennar orðstír eflast um langa hríð við þetta góða skref. En þetta er auðvitað ekki eina skrefið sem hún hefur stigið, hún mælti líka fyrir um það sem gert var farsællega á vettvangi kvikmyndanna þegar kvikmyndasjóði var breytt í Kvikmyndastofnun.

Nú hefur hæstv. ráðherra fallist á að tónlistarsjóður verði að tónlistarstofnun og það er þegar í undirbúningi, yfirlýst. Við vorum fyrst þjóða til að gera hið sama fyrir tónlistina og gert hefur verið fyrir kvikmyndirnar. Við erum að laða að tónlistarverkefni víðs vegar að úr heiminum. SinfoniaNord í mínum gamla heimabæ, Akureyri, nýtur góðs af því og fleiri tónlistarmenn. Það er ævintýri út af fyrir sig og það mun halda áfram að vaxa og dafna. Nú eru menn að undirbúa eitthvað svipað hér í höfuðborginni jafnvel með atfylgi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Við erum sammála um að hér er gengið til góðs. Það er gaman að vera í sólríkum þingsal þar sem menn eru jafn einhuga og jákvæðir og ánægðir með það sem hér er að gerast.