Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[17:07]
Horfa

Helgi Héðinsson (F):

Hæstv. forseti. Liljan dafnar sannarlega í sólinni við Austurvöll og ég ætla að nota þetta tækifæri til að fagna frumkvæði hæstv. ráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, við að koma þessu máli áleiðis. Ég treysti því, í ljósi þess hversu jákvæð umræðan hefur verið hér í dag, að þetta mál fái skjótan og góðan framgang þvert á alla flokka. Áhrifin í stóra samhenginu verða gífurlega jákvæð, það er ég algjörlega sannfærður um. Það er hægt að ræða um endurgreiðsluhlutfallið, hvert það þurfi að vera til að viðhalda nauðsynlegri samkeppnishæfni, til að við fáum þau verkefni sem við viljum sannarlega sjá hér á landi. Það er alltaf aðeins erfitt að ræða slíka hluti því að það er óljóst um magnið og það er líka óljóst hvar áhrifin koma nákvæmlega fram. Við bara vitum og rannsóknir og sagan segja okkur að jákvæð áhrif verða umtalsverð og þar af leiðandi ætti í raun ekki að tala um kostnað heldur einfaldlega nauðsynlegan áburð í jarðveg sem mun blómstra.

Undirstaða þess að ég ákvað að taka hér til máls til að lýsa eindregnum stuðningi við frumvarpið er að við sem störfum í grennd við þessa atvinnugrein og sjáum hvaða áhrif þessi verkefni hafa á byggðir landsins getum ekki annað en dáðst að því hvað þetta hefur byggst upp hratt og vel vegna ákveðinna skrefa í þá átt að tryggja að greinin geti blómstrað. Við þurfum hins vegar áfram að huga að uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum víða um landið til að geta sinnt þessum verkefnum. Það er ýmislegt sem þarf til. Þetta er mannaflsfrekt. Það þarf fjölmargt til að þetta geti gengið. Það vantar upp á það víða og við getum bara litið á það sem tækifæri til að fá stærri verkefni víða um landið.

Mig langar að nefna mannauðinn í ferðaþjónustunni. Það er harðduglegt fólk sem starfar í þessari atvinnugrein með orðstír á heimsvísu. Það er staðreynd að þessi atvinnugrein leiddi okkur út úr síðustu efnahagslægð og ég er nokkuð viss um að hún á eftir að eiga stóran þátt í að gera það öðru sinni. „Hvaðan kemur þessi kraftur?“ spyr maður sig stundum og ég held því stundum fram að það sé í raun og veru náttúran sem drífur okkur áfram. Fólk er skapandi, fólk er með hugmyndir, fólk er með kraft, sólin að sumarlagi drífur okkur áfram til góðra verka og veturinn og myrkrið veitir okkur nauðsynlegt svigrúm til umhugsunar. Ég er algerlega sannfærður um að við eigum eftir að blómstra á þessu sviði áfram.

Það er ágætt að huga að því, þegar við erum að koma út úr Covid, hvar við vorum fyrir Covid-höggið og hvar við erum eftir það sem samfélag. Þegar við horfum á þessa atvinnugrein þá erum við að koma út úr tveggja ára mjög erfiðu tímabili en ég hef trú á að við séum að vaxa ofboðslega hratt inn í mjög krefjandi aðstæður að nýju sem í felast ofboðsleg tækifæri. Við þurfum að huga að samkeppnishæfninni. Hún er sannarlega ágæt og það er mikil jákvæðni í greininni sem stendur en þessi samkeppnishæfni er ekki sjálfsögð og við verðum að leita leiða til að viðhalda henni og byggja hana upp til þess að við töpum henni ekki. Ferðaþjónustan byggir að stórum hluta á auðlindum náttúrunnar. Mig langaði að nefna, vegna þess að við erum að ráðast í aðgerð sem mun efla eftirspurn eftir því að koma til landsins og starfa hér, að við þurfum að gæta okkar á því að við nýtum auðlindir landsins, sem ferðaþjónustan sækir í í stórum stíl, með sjálfbærum hætti. Í því samhengi þurfum við að hraða uppbyggingu innviða þó að vissulega hafi verið spýtt mikið í á síðustu árum. Ég leyfi mér það stundum, og geri það hér með leyfi forseta, að vísa í það og vonast til að einn daginn getum við litið á auðlindir ferðaþjónustunnar, auðlindir landsins, með sambærilegum hætti og við gerum með auðlindir sjávarins þar sem okkur lánaðist að rannsaka auðlindina, huga að því hvernig við ætlum að nýta hana með sjálfbærum hætti og hámarka með því verðmætasköpun af takmarkaðri auðlind. Hvernig getum við gert það sem best og horft til þeirrar reynslu sem við höfum?

Ég ætla að leyfa mér að nefna hér atriði sem mér þótti miður í ræðu hv. þm. Jódísar Skúladóttur. Það er algengur plagsiður, þegar verið er að ræða ferðaþjónustu, að minnast á að það séu svartir sauðir hér. Þeir eru sannarlega alls staðar og við ættum frekar að horfa á lausnir og leiðir til að tryggja betra umhverfi utan um þessa atvinnugrein því að vinnulöggjöfin og kjarasamningar þroskuðust í raun á tíma þar sem þessi grein var ekki til eða a.m.k. ekki fyrirferðarmikil. Í samtölum mínum við fólk í þessari atvinnugrein er oft ákall eftir því að tekið verði í auknum mæli tillit til sérstöðu greinarinnar, en hún byggir á þjónustu utan þess hefðbundna dagvinnutíma sem við erum oft að fást við, og að við leitum leiða til að móta umhverfið þannig að sem víðtækust sátt geti ríkt um þessa grein og við munum geta hámarkað verðmætasköpunina í sátt við náttúru og menn. Gætum að samkeppnishæfninni og leitum áfram leiða, eins og hér er gert, til þessa til að verja hana. Hér voru áður nefnd dæmi um endurgreiðsluhlutfall sem er jafnvel enn hærra en við ræðum. Ég treysti því að í meðförum nefndarinnar og þingsins verði skoðað hvort þetta hlutfall dugi til eða hvort jafnvel eigi að ganga enn lengra.

Enn og aftur fagna ég þeim samhljómi sem er um þetta mál og treysti því að það verði afgreitt fyrir sumarið.