Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[17:13]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég kem hér stuttlega aftur upp í aðra ræðu til að koma inn á nokkra punkta sem ég gleymdi að minnast á í fyrri ræðu minni, þ.e. til að að taka undir mál hv. þm. Jódísar Skúladóttur sem kom inn á þann króníska kynjahalla sem einkennir kvikmyndageirann enn þann dag í dag og þarf að vinna bug á. Þó að við þokumst í rétta átt þarf meira til ef duga skal. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga hvað varðar ungar stelpur og ungar konur að þarna eru tækifæri og störf og framtíðariðnaður sem getur verið áhugavert fyrir þær að fara í. Kannski er vandamálið svolítið það að leiða ekki endilega hugann að því. Kvikmyndagerð og tónlistariðnaðurinn vinna t.d. mjög náið saman og þessi breyting sem við ræðum hér í dag gagnast tónlistariðnaðinum líka. Við sjáum að Hildur Guðnadóttir tónlistarmaður samdi tónlist fyrir stóra Hollywood-kvikmynd, The Joker, og var að mig minnir fyrsta konan til að vinna óskarinn fyrir frumsamda kvikmyndatónlist. Við þekkjum öll þessa sögu hennar Hildar sem við erum svo stolt af. Það þarf því að kynna kvikmyndagerð meira fyrir konum og stelpum. Þarna er svo sannarlega spennandi framtíðarstarfsvettvangur.

Réttindi starfsfólks eru líka mjög mikilvæg. Það hefur aðeins komið upp í Hollywood nýverið að þar hafa verið verkföll þeirra sem starfa í greininni, þeirra sem eru ekki eru efstir í goggunarröðinni. Þetta hefur verið töluvert vandamál. Þarna er starfsfólk alveg þjóðnýtt og útkeyrt og mikil kulnun og örmögnun hefur átt sér stað í greininni vegna þess. Réttindi starfsfólks í greininni eru því mjög mikilvæg og við sem hér störfum þurfum að hafa það í huga.

Greinin hefur gagnast landsbyggðinni mikið, eins og hefur komið fram í máli þingmanna sem töluðu á undan mér, og þarna er mögulega að spretta upp ný starfsgrein sem er kvikmyndaferðaþjónusta þar sem er verið að kíkja á staði þar sem einhverjar þekktar myndir eða þættir voru teknir upp. Þetta er allt mjög áhugavert fyrir landsbyggðina og getur styrkt atvinnuvegina úti á landi.

Svo er annað, það þarf alltaf að byggja kvikmyndir og þætti á handritum, það er oft fyrsta skrefið. Við erum bókmenntaþjóð og þekkt fyrir að geta mjög vel komið frá okkur sögum í skriflegu formi og það hafa verið gerðar margar bíómyndir út frá íslenskum bókum og jafnvel Íslendingasögunum. Þarna er annar mjög spennandi vettvangur fyrir íslenska rithöfunda. Þetta er svo yfirgripsmikill iðnaður og svo mörg störf og fög þarna undir sem hægt er að skoða.

Nýverið var hleypt af stokkunum kvikmyndanámi í Listaháskóla Íslands og það var rosalegt framfaraskref. Auðvitað vinnur þetta ofsalega mikið saman. Núna er í fyrsta sinn hægt að læra kvikmyndagerð til bakkalárgráðu á Íslandi. Námið hefst í haust í Listaháskóla Íslands. Það sýnir ákveðna langtímahugsun sem loks er komin inn í þessa grein og það er alveg frábært. Við þekkjum þessa langtímahugsun úr fótboltanum og íþróttunum, hversu mikilvæg hún er og hverju hún getur skilað þegar fram líða stundir. Þannig að þetta er æðislegt.

Eitt að lokum, tími minn er að renna út. Við komum hérna með verðmætaskapandi útflutningsgrein en rétt eins og í íþróttunum og í fótboltanum þá þarf umgjörð. Næsta skref eftir þetta flotta frumvarp (Forseti hringir.) væri að íhuga kvikmyndaver á Íslandi, stórt kvikmyndaver, á stærð við Egilshöll eða jafnvel tvær.