Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[17:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil aðeins fá að fjalla um tvö atriði í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi stærðartakmörkunina. Maður getur í fljótu bragði séð að það eru bara verkefni sem kosta að lágmarki 200 milljónir sem falla undir þessa hækkun á hlutfalli endurgreiðslu og maður getur spurt: Er einhver stóriðjustefna í gangi í kvikmyndabransanum? Nei, ég myndi ekki líta á það þannig. Ég myndi líta á það þannig að þarna sé verið að gera greinarmun á þeim verkefnum sem eru með sjálfstæða fjármögnun annars vegar og smærri verkefnum sem eru yfirleitt með einhvers konar styrki hins vegar. Þannig er þetta í rauninni jöfnun þar á milli. Það er verið að tala um markaðsframleiðslu eða, með leyfi forseta, „commercial“ framleiðslu. Aðgreiningin þarna á milli er að nokkru leyti skiljanleg þó að ég klóri mér pínu í hausnum yfir því að nákvæmlega þessi upphæð sé valin. En allt í lagi með það. Ég geri alla vega þann greinarmun á þessu að ég myndi ekki kalla þetta, eins og kannski einhverjum myndi detta í hug, stóriðjustefnu til að fá bara stór verkefni hingað.

Þá er kaflinn um mat á áhrifum dálítið áhugaverður. Þar er farið yfir skýrslu Hagfræðistofnunar, greiningu Deloitte og síðan mat á áhrifum. Ég skil vel að erfitt sé að leggja mat á áhrifin af því hversu mikið þarf að endurgreiða til viðbótar á móti því hversu mikið af fjármagni kemur í staðinn, t.d. í tengslum við stuðul starfamargfaldara og framleiðslumargfaldara í afleiddum störfum sem hafa líka hliðaráhrif á tekjur ríkissjóðs. Þó leyfi ég mér að efast um að gert sé ráð fyrir kostnaði upp á 300 milljónir til að koma til móts við þessa breytingu. Það þarf væntanlega ekki nema eitt verkefni upp á þessar 200 milljónir — það væri náttúrlega stærra en það upp á 300 milljónirnar gera en þú ert kominn upp í einhvern milljarð af verkefnum aukalega til að borga þetta upp og væntanlega mun minna en það út af hliðaráhrifum.

Það sem ég vil hins vegar gera athugasemd við varðandi endurgreiðslukerfið, eins og það er framkvæmt, er að veitt er fjárheimild í fjárlögum til að endurgreiða virðisaukaskatt hjá kvikmyndafyrirtækjunum. Þegar sú fjárheimild er búin er hætt að borga. Það er ekki gott. Það þýðir að allar greiðslur fara í pásu þangað til á næsta ári. Þá kemur ný og meiri fjárheimild og þá er byrjað að greiða upp það sem í rauninni er skuld frá fyrra ári. Það hefur safnast upp ákveðin hrúga af endurgreiðslum sem hefur þurft að vinna á og samþykkja aukafjárheimildir fyrir. Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir því að svona málaflokkar geti flakkað fram og til baka við núllið. Þegar koma inn aukaverkefni eru þetta einfaldlega réttindi sem verið er að tala um, eins og réttindi til að fá atvinnuleysisbætur, fá ákveðnar endurgreiðslur, t.d. vegna Allir vinna. Þessi réttindi takmarkast ekki við einhverja fjárheimild en í þessu tilviki þá hættir ráðuneytið að greiða þessar fjárhæðir þegar fjárheimildir eru búnar, sem mér finnst skrýtið. Ég hef vakið athygli á þessu í fleiri málaflokkum. Stundum má bara halda áfram að greiða þó að það fari fram úr fjárheimildum, án þess að koma til þingsins og sækja um meiri fjárheimildir, en í öðrum verkefnum má það allt í einu ekki. Þá verður að stoppa og bíða eftir að þingið samþykki meiri fjárheimildir. Þetta er skýrt dæmi um einmitt það.

Það er rétt að það ætti að gera þetta þannig, koma til þingsins og biðja um aukafjárheimildir, en á sama tíma er líka gert ráð fyrir því í lögum um opinber fjármál að einstaka verkefni geti sveiflast yfir fjárheimildir ef ákveðin réttindi eru fyrir hendi. Þá er það í raun bara hlutverk ráðherra að ná þeim halla upp í kjölfarið, einfaldlega með því að útskýra hvernig þetta hafi verið vanfjármagnað í fjárlögum af því að það komu fleiri verkefni en búist var við, þetta sé eitthvað sem fólk eigi rétt á, eða með því að hagræða einhvern veginn, setja reglugerðir eða eitthvað því um líkt sem einfaldlega takmarkar þá rétt kvikmyndafyrirtækjanna til að fá endurgreiðslu nema þau hafi látið vita af sér með góðum fyrirvara þannig að hægt sé að segja fyrir fram já eða nei, hvort af endurgreiðslu verði eða ekki. Þetta finnst mér mjög óskýrt — ekki í frumvarpinu, þetta kemur frumvarpinu í sjálfu sér ekki við heldur er það einfaldlega framkvæmd fjárlaga sem er gölluð. Hún á ekki að vera svona.

Ég geri örlitla athugasemd við þessi tvö atriði og sérstaklega bara hvernig við framkvæmum fjárlög. Ég beini því heils hugar til ráðherra málaflokksins að gera frumvarpið skýrt með tilliti til framkvæmdar fjárlaga, þ.e. að endurgreiðslurnar gangi eðlilega fyrir sig samkvæmt þeim réttindum sem fyrirtækin hafa sem greiða virðisaukaskattinn. Þau ættu í raun að greiða minni virðisaukaskatt. Þau ættu bara að skila inn reikningum og því um líku til þess að sýna fram á kostnað. Tæknilega séð er þetta spurning um endurgreiðslu en fræðilega séð getur maður orðað það þannig að þetta sé að einhverju leyti lægra skattþrep, sem myndi þýða að þessi fyrirtæki þyrftu ekki að borga þennan pening til að byrja með en framkvæmdin er á þann hátt að það er lagað eftir á. Að því leyti til er ekkert vandamál fyrir ríkissjóð að standa skil á þessum endurgreiðslum af því að þegar er búið að borga þennan skatt til ríkisins.

Ég hlakka til að sjá að þessi málaflokkur strandi ekki eins og hann hefur áður gert og safnist upp einhver veikleiki vegna hans í fjárlögum því að sannarlega á það ekki að gerast. Þetta eru einfaldlega réttindi sem fyrirtækin vinna sér inn með því að uppfylla þau skilyrði sem sett eru samkvæmt lögum.