Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

692. mál
[17:27]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir mjög jákvæð viðbrögð. Mig langar líka aðeins að fara yfir hina svokölluðu stóru mynd efnahagsmála og af hverju ég tel að þetta frumvarp sé mikilvægt upp á að búa til nýjar gjaldeyristekjur í nýjum greinum. Mig langar í örstuttu máli að fara yfir hvað hefur verið að gerast á síðustu 30 árum. Við erum með hagkerfi sem var gjörsamlega háð einni grein, þ.e. sjávarútvegi. 90% af gjaldeyristekjum okkar komu þaðan og það var auðvitað mjög viðkvæmt fyrir ytri áföllum, ef eitthvað myndi gerast á þeim vettvangi. Við förum svo að flytja út orku og förum að virkja fallvötnin og jarðvarmann. Ferðaþjónustan kemur svo gríðarlega sterk inn og nú falla hugverkaiðnaðurinn og kvikmyndir undir þann iðnað og þá menningu. Þetta er samspil skapandi greina. Gjaldeyristekjur á þeim vettvangi hafa vaxið á síðustu átta árum um 8%, farið úr 8% í 16%. Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess, eins og kom fram í máli hv. þm. Loga Einarssonar, að þetta byggir allt á þekkingu sem er auðvitað ekki eins háð ytri sveiflum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir lítið opið hagkerfi eins og hið íslenska að við höldum áfram að tryggja að atvinnuvegir landsins séu fjölbreyttir og stoðirnar séu styrkar.

Mig langar aðeins að fara yfir nokkur atriði sem komu fram í máli þingmanna við umræðuna. Hjá hv. þm. Jódísi Skúladóttur kom fram að henni væri mjög umhugað um réttindi starfsfólks í þessum geira og hún benti líka á kynjahlutföllin þar. Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt að réttindi séu tryggð og að við förum eftir þeim reglum og réttindum sem eiga við.

Einnig kom þetta fram í máli hv. þm. Söru Elísu Þórðardóttur. Ég vil líka þakka henni fyrir að hafa talað fyrir þessu máli, hún hefur verið mjög ákafur stuðningsmaður þess að hækka hlutfallið í 35% fyrir stærri verkefni. Þar hefur verið fullkominn skilningur á mikilvæginu. Samkeppnishæfnin var orðin slök. Við vorum að keppa við ríki eins og Írland og Skotland sem höfðu farið fram úr okkur hvað þetta varðar. Auðvitað er engum umhugað um að fara í eitthvert sérstakt kapphlaup hvað þetta varðar en hins vegar, ef við erum að byggja upp iðnað eins og kvikmyndir, var ljóst að við vorum farin að dragast aftur úr og vorum farin að missa af ákveðnum tækifærum. Það var því mjög brýnt að stíga þetta skref.

Mig langar í þessu samhengi að minnast á umfangið. Umfang þessa iðnaðar var um 30 milljarðar árið 2019 og þau verkefni sem menn hafa áhuga á að koma með hingað eru á bilinu 7–9 milljarðar. Þið getið því ímyndað ykkur veltuaukninguna sem er að fara að eiga sér stað vegna þessa. Þetta er algjörlega í samræmi við þá kvikmyndastefnu sem var mörkuð á síðasta kjörtímabili. Þetta frumvarp er í takt við aðgerð sex þar sem við segjum að mjög brýnt sé að stuðla að samkeppnishæfni iðnaðarins.

Ég held að við getum öll verið sammála um það hér á Alþingi Íslendinga að þegar Hildur Guðnadóttir fékk óskarsverðlaunin fyrir kvikmyndatónlist, sem er einn besti vitnisburður þess hversu öflugt nám er hér á Íslandi, í Listaháskóla Íslands — þess vegna ákváðum við líka á síðasta kjörtímabili að færa kvikmyndanám á háskólastig, undir Listaháskóla Íslands, og það er að raungerast. Mér finnst mjög mikilvægt að þegar við erum að stuðla að því að ákveðinn iðnaður vaxi og dafni þá séu innviðirnir góðir, þ.e. að verið sé að huga að réttindum þeirra sem eru í iðnaðinum, að námið sé traust og gott. Þetta er, myndi ég segja, þannig heildræn nálgun á þennan iðnað.

Ég tel að það sé rétt sem kemur fram í máli Sigmars Guðmundssonar að þessi iðnaður styðji við fjölmiðla. Ég vil bara ítreka það og óska eftir samstarfi, þverpólitísku samstarfi hér á þinginu, um nauðsyn þess að styðja betur við fjölmiðla. Sú samkeppni sem íslenskir fjölmiðlar eru í við erlendar efnisveitur og fleiri er það umfangsmikil að það getur ógnað framtíð tungumálsins. Ég tel að það verði áframhaldandi verkefni þessa kjörtímabils að styðja betur við fjölmiðla.

Hv. þm. Logi Einarsson minntist á myndlistarnám og ég vil upplýsa hv. þingmann um að við erum að leggja lokadrög að myndlistarstefnu í ráðuneyti mínu og við byrjuðum þá stefnumótun á síðasta kjörtímabili. Við leggjum sérstaka áherslu á hönnun og arkitektúr, myndlist og tónlist vegna þess að við teljum að styðja þurfi betur innviði þessarar listgreinar og þessara málaflokka. Allar hagrannsóknir sýna okkur að hærra menntunarstig í viðkomandi grein eykur á nýsköpun og tækni sem eykur svo hlutdeild í alþjóðaviðskiptum og eykur svo velsæld viðkomandi þjóðar.

Ég held að við þurfum alltaf að huga að því, þegar við erum að móta umgjörð og styðja við umgjörð ákveðinna atvinnugreina, hvernig við erum samkeppnishæf. Hvernig er viðkomandi grein að afla eða búa til meiri verðmæti en ella hefði verið fyrir þjóðarbúið? Ég get upplýst þingið um að nýverið settum við á laggirnar í ráðuneyti menningar og viðskipta skrifstofu sem ber heitið skrifstofa verðmætasköpunar. Er það í fyrsta sinn í sögu Stjórnarráðsins sem búin er til sérstök skrifstofa um verðmætasköpun. Allt snýst þetta um greiðslujöfnuð þjóðarbúsins — erum við að flytja meira út en við erum að flytja inn? Ef við gerum það þá erum við með góðan gjaldeyrisforða og getum staðið af okkur ákveðin efnahagsáföll.

Virðulegi forseti. Í dag starfa um 15.000 einstaklingar við skapandi greinar, og þeim fer fjölgandi. Ég tel að það sé vitnisburður um að velsæld og hagsæld sé mikil á Íslandi. Það fylgir iðulega þjóðum þar sem er öflugt menningarlíf að þar er líka mikil hagsæld. Mannkynssagan kennir okkur það. Þess vegna óska ég eftir því að þingið haldi áfram með ráðuneytinu í þeirri vegferð að styðja innviðina enn frekar. Um leið og þingið hefur fjallað efnislega um þetta frumvarp tel ég að sú umgjörð sem er í kringum kvikmyndir sé að verða býsna góð.

Mig langar aðeins áður en ég lýk máli mínu — hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á hin hagrænu áhrif og vitnaði líka í greiningu Deloitte á hagrænum áhrifum endurgreiðslukerfisins vegna kvikmyndagerðar. Árið 2006 var talið að afleidd áhrif kvikmyndagerðar, áætluð með margföldurum, að framleiðslumargfaldari væri 2,4 og starfamargfaldari 2,9. Ef við horfum til ferðaþjónustunnar er þetta líklega hærra vegna þess að vel yfir 50% af öllum þeim ferðamönnum sem heimsækja landið geta þess að þeir hafi séð Ísland fyrst eða heyrt um Ísland í kvikmynd eða í myndbandi eða eitthvað í tengslum við þennan geira. Þar sem ferðaþjónustan hefur vaxið mjög mikið eru þessar greinar, ferðaþjónusta og kvikmyndaiðnaðurinn og sjónvarpsiðnaðurinn, nátengdar.

Hér var líka nefnt hvernig fjárlögin fjalla um þennan lið. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þetta gæti verið skýrara. Oft hefur það verið þannig að þegar hefur vantað upp á þá fer þetta inn í fjáraukalögin en líklegast væri skynsamlegast að kveðið væri á um þetta með skýrari hætti. Ég tek þessa ábendingu til mín.

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég þakka kærlega fyrir það innlegg sem þingmenn hafa komið hér með við umræðu um frumvarpið. Það eru fleiri erlendir aðilar sem hafa mikinn áhuga á því að koma og dvelja í langan tíma, bara svo að maður upplýsi það. Oft hafa tökudagar hér verið á bilinu tveir til fimm, einhverjir aðeins lengur, en nú erum við að tala um allt annað þar sem tökudagar eru a.m.k. 30 dagar og sum af þeim verkefnum sem menn hafa áhuga á að koma með hingað eru jafnvel yfir hálft ár og tekin vítt og breitt um landið. Margföldunaráhrifin eru því ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur líka á landsbyggðinni og oft er komið hingað þegar þannig háttar til að það er ekki á háannatíma ferðaþjónustunnar.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er tilbúið til þess að fara inn í atvinnuveganefnd og ég lýsi því að sjálfsögðu yfir að ráðuneytið hefur mikinn hug á því að starfa mjög náið með nefndinni til að við getum klárað frumvarpið fljótt og örugglega.