Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

evrópskir langtímafjárfestingarsjóðir.

508. mál
[17:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um evrópska langtímafjárfestingarsjóði. Frumvarpið er á þskj. 725, mál nr. 508.

Frumvarpið kveður á um innleiðingu í íslenskan rétt á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/760, um evrópska langtímafjárfestingarsjóði. Með gerðinni er settur rammi um notkun heitanna ELTIF og um evrópska langtímafjárfestingarsjóði fyrir þá rekstraraðila sem kjósa að markaðssetja slíka sjóði innan EES. Sjóðirnir leggja áherslu á langtímafjárfestingar til ýmissa verkefna á sviði t.d. innviða, óskráðra fyrirtækja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglu­gerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um hvernig eftirlit fari fram, viðurlög og setningu stjórnvaldsfyrirmæla. Í reglugerðinni er fjallað um þau skilyrði sem uppfylla þarf til þess að unnt sé að markaðssetja sjóði sem þessa. Meginefni reglugerðarinnar er í fyrsta lagi að kveðið er á um að sjóðirnir skuli öðlast staðfestingu sem ELTIF-sjóðir og að rekstraraðilar skuli fá samþykki frá lögbærum yfirvöldum til að reka slíka sjóði. Staðfesting ELTIF-sjóðs gildir í öllum aðildarríkjum EES.

Í öðru lagi er kveðið á um hvaða fjárfestingar teljast heimilar sjóðum sem þessum. Sjóðirnir þurfa að fjárfesta a.m.k. 70% af heildarfjármagnsframlagi sínu og óinnheimtu stofnfé sem fjárfestar hafa skráð sig fyrir, í hæfum fjárfestingum.

Þá er í þriðja lagi rakið hverjir eru hæfir fjárfestar, en sjóðirnir eru eins og aðrir sérhæfðir sjóðir ætlaðir fyrir fagfjárfesta. Það er þó heimilt að markaðsetja sjóðina til almennra fjárfesta að uppfylltum sérstökum skilyrðum til að tryggja fjárfestavernd.

Í fjórða lagi er gerðar gagnsæiskröfur, svo sem varðandi útboðslýsingu sjóðanna og lykilupplýsingar ef sjóður er markaðssettur til almennra fjárfesta. Þá skal í öllu markaðsefni greina skýrt frá eðli viðkomandi sjóðs, svo sem varðandi seljanleika og áhættusnið.

Í fimmta lagi er kveðið á um að almennt skuli innlausnir ekki vera mögulegar áður en líftíma ELTIF-sjóðs lýkur, en þó sé heimilt að leyfa innlausnir fyrir lok líftíma sjóðsins að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Í sjötta lagi er svo rakið að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin haldi úti opinberum miðlægum gagnagrunni um alla ELTIF-sjóði sem hafa fengið staðfestingu rekstraraðila þeirra og lögbær yfirvöld sjóðanna.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu koma einungis til með að hafa áhrif á þá rekstraraðila sem ákveða að bjóða upp á umrædda sjóðategund. Svona sjóðir eru ekki starfræktir hér á landi núna, enda hefur íslenskt lagaumhverfi ekki boðið upp á það, og ekki liggur fyrir hver eftirspurnin verður eftir því að stofna slíka sjóði. Auknar skyldur verða lagðar á þá rekstraraðila sem kjósa að bjóða upp á ELTIF-sjóði, svo sem í tengslum við umsókn um staðfestingu fyrir sjóðina og um samþykki sem rekstraraðilar þurfa að afla frá Fjármálaeftirlitinu til að reka sjóð af þessu tagi og svo vegna eftirlits með t.d. markaðsetningu sjóðanna og viðskiptaháttum rekstraraðilanna. Ekki er gert ráð fyrir auknum umsvifum Fjármálaeftirlitsins vegna fyrirhugaðrar lagasetningar að svo stöddu, en komi til þess að rekstraraðilar ákveði að bjóða upp á þessa nýju sjóðategund gætu umsvifin aukist svo einhverju nemi. Er talið að áhrif innleiðingar reglugerðarinnar verði óveruleg, að verkefnin rúmist innan núverandi rekstraráætlana Fjármálaeftirlitsins og áhrif á ríkissjóð verði því engin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.