Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

459. mál
[19:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Tilgangur þess er fyrst og fremst að gera breytingar á ákvæði laganna er snýr að því hver annist reikningshald Kirkjugarðasjóðs en ábending um það hefur m.a. borist frá Ríkisendurskoðun. Samkvæmt 5. mgr. 40. gr. gildandi laga annast skrifstofa biskups reikningshald sjóðsins, en frumvarpið gerir ráð fyrir að ábyrgð á reikningshaldinu verði færð til kirkjugarðaráðs sem þykir betur til þess fallið að halda utan um það en skrifstofa biskups. Jafnframt er lagt til að brott falli ákvæði í sama málslið þar sem fram kemur að um reikningshald sjóðsins gildi sömu reglur og um reikningshald kirkna, enda ákvæðið ekki talið eiga við, verði fyrri breytingin samþykkt.

Stjórn Kirkjugarðasjóðs er samkvæmt lögum í höndum kirkjugarðaráðs en það er bæði skipað aðilum innan og utan þjóðkirkjunnar enda hlutverk kirkjugarða ekki bundið við þjóðkirkjuna. Þar sem kirkjugarðar eru sjálfseignarstofnanir með sérstöku fjárhaldi er talið orka tvímælis að skrifstofa biskups annist reikningshald Kirkjugarðasjóðs og þykir sú breyting sem hér er lögð til því tímabær. Samhliða þessari breytingu er lagt til að úr lögunum verði felld brott tvö ákvæði er lúta að Bálfarafélagi Íslands þar sem félagið hefur ekki verið starfandi í meira en hálfa öld. Er annars vegar um að ræða heimild félagsins sem lagt hefur verið niður til að kjósa mann í kirkjugarðastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og hins vegar ákvæði um að leita skuli tillagna félagsins um reglugerðir varðandi líkbrennslu. Þessi breyting snýr fyrst og fremst að því að uppfæra lögin miðað við stöðu mála í dag, þ.e. að fella brott ákvæði sem vísar til tiltekins félags sem fellt hefur verið niður og eru ákvæðin því ekki talin eiga heima í lögum í dag. Við undirbúning frumvarps þessa var haft samband við kirkjugarðaráð og skrifstofu biskups Íslands.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.