Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

459. mál
[20:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé nú kannski fulldjúpt í árinni tekið að segja að þessi umsögn hafi verið hunsuð. Auðvitað er litið til allra umsagna við gerð frumvarpa. Það er aftur á móti ekki endilega svo að allar tillögur sem koma fram í umsögnum rati inn í frumvörpin. Það er svo annað mál að ræða þessi bálstofumál, það er ágætt og ég er með það til skoðunar í ráðuneytinu. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður kemur inn á, að um er að ræða þjónustu sem þarf að vera í boði. Ég hef litið svo á, þrátt fyrir að engin lagaákvæði séu um slíkt, að hinu opinbera sé í raun skylt að sjá til þess að þessi þjónusta sé til staðar. Það hafa ákveðnir aðilar, sem kenna sig við Tré lífsins, lagt fram hugmyndir um að reka slíka bálstofu í Garðabæ og Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæmis hafa einnig gert ráð fyrir þessu í Gufuneskirkjugarði. Þetta er ég að skoða. Í báðum þessum hugmyndum er reitt nokkuð hátt til höggs, þ.e. reiknað er með að byggja heilmikið húsnæði í kringum þetta, með tilheyrandi sölum og slíku. Ég velti því fyrir mér hversu langt eigi að ganga í því, það er nauðsynlegt að þjónustan sé til staðar en ég sé ekki endilega ástæðu til að ríkið taki þátt í rekstri einhverra veislusala eða annarri uppbyggingu í kringum þetta meira en nauðsynlegt er til þess að geta sinnt þessari þjónustu.

Það þarf líka að hyggja að því í þessu sambandi, því að við erum fámenn þjóð í stóru landi, hvernig við gætum jafnræðis á milli þeirra sem búa úti á landi og bera þá meiri kostnað en þeir sem búa hér í næsta nágrenni við mögulega bálfarastofu sem sinnir þessari þjónustu. Það er mikilvægt að við förum að taka ákvarðanir í þessu máli. Eins og fram hefur komið eru þessir ofnar komnir til ára sinna. Aðstæður voru allt aðrar þegar þetta var innleitt á sínum tíma, eftirspurnin er miklu meira í dag og við verðum að svara því kalli.