Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[20:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga. Frumvarpið byggist að hluta til á frumvarpi sem samið var af réttarfarsnefnd og lagt fram af þáverandi dómsmálaráðherra á 151. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu úr allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.

Frumvarpið hefur tekið miklum breytingum frá fyrra frumvarpi og hefur í þeim efnum að verulegu leyti verið tekið tillit til umsagna sem bárust allsherjar- og menntamálanefnd um eldra frumvarp, til að mynda um rétt brotaþola til aðgangs að gögnum á rannsóknarstigi, til að vera viðstaddur lokað þinghald, til að leggja spurningar milliliðalaust fyrir skýrslugjafa við meðferð máls fyrir dómi og leggja þar fram sönnunargögn, til að ávarpa dóm í lok aðalmeðferðar sem og um aukinn rétt brotaþola til upplýsinga um gæsluvarðhald, áfrýjun og tilhögun afplánunar dómfellda.

Með samningu frumvarpsins var litið til greinargerðar Hildar Fjólu Antonsdóttur, Réttlát málsmeðferð með tilliti til þolenda kynferðisbrota, sem kom út í maí 2019 og umsagnar réttarfarsnefndar um þær tillögur sem þar eru lagðar fram. Þá var horft til Skýrslu starfshóps um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða, sem unnin var fyrir ríkissaksóknara og kom út í júní 2018. Að auki hefur verið litið til réttarþróunar á hinum Norðurlöndunum.

Breytingartillögum frumvarpsins má að meginstefnu skipta í þrennt:

Í fyrsta lagi er með frumvarpinu leitast við að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar í því augnamiði að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum.

Loks er í þriðja lagi stefnt að því með frumvarpinu að bæta réttarstöðu aðstandenda látins einstaklings í þeim tilvikum sem rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök hans.

Að því er varðar bætta réttarstöðu brotaþola er þess í upphafi sérstaklega að geta að við undirbúning frumvarpsins voru einkum teknar til athugunar tvær aðferðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola, þ.e. að veita brotaþola annars vegar formlega aðild að refsiþætti sakamáls eða hins vegar að gera réttarbætur sem styrkja réttarstöðu brotaþola með því að veita honum aukin réttindi við rannsókn og meðferð sakamáls fyrir dómi.

Síðarnefnda leiðin er lögð til með frumvarpinu þar sem hún þykir í reynd betur til þess fallin að styrkja réttarstöðu brotaþola. Hún veldur ekki hættu á að vegið verði að trúverðugleika framburðar brotaþola né því að gengið verði á réttindi sakhæfra manna. Margar þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu eiga það einnig sammerkt að geta stuðlað að því að mál upplýsist frekar. Þess skal einnig getið að leitast hefur verið við að hafa þær breytingar almennar eins og framast er unnt en í einstaka tilvikum eru þær bundnar við aðstæður þar sem skilyrði eru uppfyllt til tilnefningar eða skipunar réttargæslumanns.

Með frumvarpinu er m.a. lagt til að aðgangur réttargæslumanns af gögnum á rannsóknarstigi verði í grundvallaratriðum sá sami og aðgangur verjanda. Slíkur aðgangur er talinn auka á jafnræði á milli sakbornings og brotaþola en getur jafnframt stuðlað að því að mál upplýsist enda kann brotaþoli að búa yfir upplýsingum sem honum er illmögulegt að átta sig á að hafi þýðingu fyrir rannsókn máls nema hann viti hvað þar hefur áður komið fram.

Þá er lagt til að brotaþoli fái að vera viðstaddur lokað þinghald eftir að hafa gefið þar skýrslu. Þannig er lagt til að skýrt verði kveðið á um í lögum að brotaþola og fyrirsvarsmanni hans sé ávallt heimilt að vera viðstaddur lokað þinghald eftir það tímamark eða fylgjast með því í gegnum fjarfundabúnað í dómhúsi þar sem því verður komið við, nema dómari telji sérstakar ástæður mæla gegn því. Einnig að verði brotaþola sjálfum heimilt að taka stuttlega til máls í lok aðalmeðferðar á sama hátt og ákærða er heimilt að gildandi lögum. Sú breyting þykir stuðla að auknu jafnræði milli ákærða og brotaþola. Enn fremur er lagt til að réttargæslumanni verði milliliðalaust heimilað að beina spurningum til skýrslugjafa fyrir dómi í stað þess að þurfa að beina tilmælum um spurningar til dómara. Þá miðar tillagan sömuleiðis að því að heimilt verði að spyrja hvort tveggja um atriði er varða refsikröfu ákæruvalds og einkaréttarkröfur brotaþola sjálfs en ekki eingöngu einkaréttarkröfuna, líkt og gildandi lög mæla fyrir um.

Í ljósi rannsóknarhagsmuna og forræðis lögreglu á rannsókn sakamála er ekki lögð til sams konar milliliðalaus heimild réttargæslumanns hvað varðar skýrslugjafir hjá lögreglu. Á hinn bóginn er sú breyting lögð til að réttargæslumanni verði heimilt að beina tilmælum til lögreglu um að lagðar verði tilteknar spurningar, ekki einungis fyrir skjólstæðing hans líkt og að gildandi lögum heldur einnig fyrir sakborning og vitni.

Að því er varðar bætta réttarstöðu brotaþola er jafnframt lagt til með frumvarpinu að brotaþola verði einnig milliliðalaust heimilað að leggja fram gögn fyrir dómi er varða refsiþátt sakamálsins. Nái breytingin fram að ganga verður slík framlagning heimiluð, hvort heldur sem er til stuðnings kröfugerð ákæruvalds um refsingu, refsikennd viðurlög og greiðslu sakarkostnaðar eða til að færa sönnur á einkaréttarkröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi ákærða. Hér er um allnokkra breytingu að ræða sökum þess að slík gagnaframlagning um annað en atriði að baki einkaréttarkröfu er að gildandi rétti að meginþræði á forræði ákæruvalds og ákærða, auk þess sem dómari getur beint tilmælum til ákæruvalds um sönnunarfærslu. Sérstaklega skal þó tekið fram að í framkvæmd hefur brotaþoli nú þegar í reynd sjálfur eða fyrir milligöngu réttargæslumanns færi á að koma skjölum eða öðrum sýnilegum sönnunargögnum á framfæri við ákæranda eftir útgáfu ákæru eða lögreglu við rannsókn máls.

Þá er lagt til með frumvarpinu að brotaþola verði í ríkara mæli skipaður réttargæslumaður við meðferð áfrýjaðra mála. Einnig að brotaþola verði veitt það aukna réttarhagræði við meðferð máls á áfrýjunarstigi að krefjast ómerkingar á þeim þætti áfrýjaðs dóms sem lýtur að frávísun skaðabótakröfu brotaþola þegar ákærði hefur verið sýknaður og bótakröfu af þeim sökum vísað frá dómi.

Ef krafa um ómerkingu nær fram að ganga mælir frumvarpið enn fremur fyrir um að brotaþoli skuli njóta gjafsóknar við frekari málsmeðferð skaðabótakröfu sinnar í einkamáli um slíka kröfu á hendur ákærða.

Samkvæmt gildandi rétti er skipun réttargæslumanns fyrir æðri dómi bundin við að einkaréttarkrafa brotaþola sé þar til meðferðar að efni til. Með meðferð kröfu fyrir æðri dómi um ómerkingu þess þáttar sýknudóms sem lýtur að frávísun bótakröfu kann brotaþoli að hafa sérstaka þörf fyrir skipun réttargæslumanns. Réttargæslumanni verður þá jafnframt við sömu aðstæður einnig heimilt að spyrja spurninga og leggja fram gögn fyrir hönd brotaþola eftir því sem lög um meðferð sakamála munu nánar mæla fyrir um, verði frumvarpið að lögum. Ekki þykir loku fyrir það skotið að sú aðkoma réttargæslumanns kunni að auka líkurnar á að refsiþáttur málsins upplýst enn frekar. Auk þessa hefur í framkvæmd þótt óheppilegt við skýrslugjöf brotaþola á áfrýjunarstigi að honum sé ekki skipaður réttargæslumaður til að gæta hagsmuna hans og veita honum aðstoð að öðru leyti. Því þykir rétt að skipun réttargæslumanns fyrir æðri dómi geti einnig komið til, ef það er nauðsynlegt, að taka af honum skýrslu óháð því hvort einkaréttar krafa sé þarf jafnframt til meðferðar.

Loks er, að því er brotaþolar varðar, lagt til að lögfest verði skylda lögreglu og ákæranda til að upplýsa brotaþola um það ef sakborningur eða ákærði hefur verið úrskurðaður í eða látinn laus úr gæsluvarðhaldi í ákveðnum tilvikum, sem og ef dómi hefur verið áfrýjað eða sótt um leyfi til þess. Skyldur af þessu tagi er nú að finna í fyrirmælum ríkissaksóknara en rétt þykir að kveða á um þær í lögum.

Þá er enn fremur lagt til að lögfest verði heimild til handa Fangelsismálastofnun til að upplýsa brotaþola um tilhögun afplánunar fanga sem brotið hefur gegn honum, óski brotaþoli þess.

Sem fyrr segir miða nokkrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu að því að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í þeim efnum er m.a. lagt til að dómari geti ákveðið í vissum tilvikum að skýrsla af fötluðum brotaþola eða vitni verði tekin í sérútbúnu húsnæði sem og að dómari geti hvatt kunnáttumann sér til að aðstoðar við skýrslutöku af fötluðu vitni.

Þá er lagt til að fötluðum sakborningi og vitni verði heimilt að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku, hvort heldur sem er hjá lögreglu eða fyrir dómi.

Að lokum er með frumvarpinu stefnt að því að bæta réttarstöðu aðstandenda látins einstaklings í þeim tilvikum sem rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök hans. Þannig verði aðstandanda heimilt að koma fram sem fyrirsvarsmaður hins látna undir rannsókn málsins hjá lögreglu og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að tilnefna fyrirsvarsmanni réttargæslumann.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði frumvarpsins en að öðru leyti vísast til greinargerðar þess og athugasemda við einstök ákvæði. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.