Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:05]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að ræða aðeins um það sem fjallað er um í 10. gr. þessa frumvarps, þ.e. ferðaheimildir til og frá löndum. Ef skoðaðar eru upplýsingar um þá sem sótt hafa um hæli hér á landi á síðastliðnum þremur árum og ef ekki er tekið með í þá útreikninga Úkraínubúarnir sem komið hafa á þessu ári, þá hafa á þessu ári 265 af 455 einstaklingum, eða um 58%, komið frá Venesúela. Í fyrra var það 361 af 872, eða 41%, og 2020 voru þetta 104 af 654, eða 16%. Eins og sjá má af þessum tölum hefur fjöldi einstaklinga sem koma frá Venesúela stóraukist og eru þeir orðnir stór hluti þeirra sem sækja um hæli hér á landi. Það er líka vert að nefna að 95% þeirra Venesúelabúa sem sóttu um vernd í fyrra fengu samþykkta vernd. Nú hefur hæstv. ráðherra talað mikið um að létta á kerfinu. Það hefur komið mér svolítið á óvart að Venesúela er eitt þeirra landa þar sem ekki þarf vegabréfsáritun til Íslands og það hefur verið þannig um árabil. Mig langaði forvitnast varðandi þetta með að gefa út ferðaheimildir og annað: Af hverju er ekki löngu búið að setja kröfu um vegabréfsáritun frá Venesúela til að minnka álagið á Útlendingastofnun?