Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ágætisspurning. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það er mikill fjöldi frá Venesúela sem leitar ásjár. Það hefur vakið athygli, alveg sérstaklega. Það er miklu hærra hlutfall hjá okkur hér á Íslandi en t.d. gengur og gerist á Norðurlöndunum þar sem það er jafnvel bara mjög lágt hlutfall. Þetta á sér ákveðnar skýringar sem komu fram í úrskurði úrskurðarnefndar um útlendingamál. Af hverju erum við ekki búin að taka upp vegabréfsáritun frá Venesúela? Ja, við erum hluti af Schengen-svæðinu þannig að vegabréfsáritun er ekki tekin upp í einu landi heldur öllum löndum. Við höfum rætt þetta alveg sérstaklega við yfirvöld á Spáni. Ég hef sjálfur átt samtal við ráðherra um þetta og sendiherra okkar í Brussel hefur fylgt þessu eftir. Við höfum einnig vakið athygli á þessu á Norðurlöndunum. Það vekur athygli landamæravarða, sem er allt í lagi að komi fram, að það er mjög mikið af fólki með nýútgefin vegabréf sem ferðast til landsins. Það hefur vakið athygli í það minnsta. Ástæðan er sú að við erum sem sagt í þessu Schengen-samstarfi. Við getum ekki tekið þetta einhliða upp en við höfum vakið athygli samstarfsþjóða okkar á því að flest af þessu fólki kemur í gegnum Spán. Þess vegna höfum við beint orðum okkar til spænskra yfirvalda.