Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér ekki hægt að segja að þetta frumvarp, verði það að lögum, muni hafa einhver sérstök áhrif á þá sem leita hér eftir vernd eða á hælisleitendur. Þetta hefur auðvitað áhrif á öllu Schengen-svæðinu en ekkert meira hér umfram önnur lönd. Þetta er fyrst og fremst innleiðing á nútímatækni í landamæraeftirliti sem er gríðarlega mikilvægt. Stóru málin sem eru hér undir er hversu mikið gildi þetta hefur þegar kemur að samvinnu lögregluyfirvalda í skipulagðri brotastarfsemi sem engin landamæri virðir, í mansalsmálum og slíku. Þetta mun auka mjög á allt öryggi á landamærum okkar. Fæstir lenda í neinum vandræðum í því sambandi, þeir upplifa þetta miklu frekar sem kannski bara öruggari, betri og hraðari þjónustu á landamærum við afgreiðslu. En þetta gefur okkur miklu betri tækifæri í samvinnu við Schengen-þjóðirnar til að vera með markvissara og betra eftirlit og halda utan um skráningu, sem er bara mjög mikilvægt við þær aðstæður sem við búum við í dag.

Hversu mikið við getum ákveðið sjálf? Auðvitað takmarkar þetta samstarf okkur í því að taka algerlega einhliða ákvarðanir þegar kemur að landamæravörslu. Við erum hluti af þessu samstarfi en við njótum gríðarlega mikils. Það er engin spurning þegar maður fer að kafa ofan í þetta og skoða að ávinningurinn af því að vera þátttakendur með öðrum þjóðum í þessu samstarfi er miklu meiri en mögulegar fórnir.