Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem stendur varðandi mat á áhrifum á persónuvernd einstaklinga í greinargerðinni. Það þykir ekki ástæða til að leggja mat á áhrif frumvarpsins á persónuvernd einstaklinga enda byggi persónuverndarákvæði frumvarpsins á persónuverndarreglum Evrópusambandsins. Er þetta ekki dálítið ódýrt. Er hægt að segja að vegna þess að þessar greinar séu afritaðar úr einhverju evrópsku regluverki þá þurfi ekki að skoða víxlverkan þeirra við önnur íslensk lög sem mögulega eru ekki til staðar í Evrópureglum? Ég hefði haldið að þegar við erum að endurskoða í heild sinni eða að leggja fram heildarfrumvarp um málaflokk sem snertir á jafn mörgum þáttum persónuverndar og landamæraeftirlit þá hefði nú ráðuneyti persónuverndarmála kannski þurft að leggja á sig alla vega einn snúning til að meta þennan þátt. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann telji þetta vera til fyrirmyndar.