Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það komu ekki athugasemdir, segir ráðherrann, við þessa nálgun út frá persónuverndarsjónarmiðum, en ég velti fyrir mér hvort það spili inn í að þetta var sent í samráð 22. desember og samráði lauk 12. janúar. Gæti verið að fólkið sem best þekkir til persónuverndarmála hafi bara misst af þessu? Eitthvert samráð var haft við stofnunina Persónuvernd, en ég ítreka það sem ég sagði hérna áðan að ég held að það sé nokkuð gáskalega farið um regluverkið að halda að við getum tekið persónuverndargreinarnar og sett inn í þessi lög og þar með þurfi ekki að skoða hvernig þær snerta við öðrum greinum annarra laga. Ég hefði haldið að eitthvert heildarmat á áhrifum á persónuvernd þyrfti að fara fram. Ég vænti þess að núna utan jólafrís fáum við kannski einhverjar efnismeiri umsagnir frá fólki sem best þekkir til.

Mig langar aðeins að spyrja hér að tvennu. Annars vegar er bætt inn í lög um útlendinga, inn í 106. gr. þeirra laga, almannaheilbrigði sem ástæðu sem nota má til að brottvísa fólki. Þetta er gert með vísan til orðalags Schengen-reglugerðarinnar. Þarf ekki að skilgreina þetta hugtak? Það er nefnilega ekki gert í lagasafninu. Er hægt að setja inn orð sem hefur jafn mikil réttaráhrif fyrir einstakling án þess að það komi nokkurs staðar fram hvað það þýðir? Hins vegar langar mig að spyrja, vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að þetta frumvarp ætti ekki hafa mikil áhrif á fólk á flótta: Hér eru eru lagðar til breytingar; í e-lið 25. gr. laga um frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 98. gr. sem snúast beinlínis um brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun, snúast um að herða dálítið tökin á fólkinu í þessari viðkvæmu stöðu. (Forseti hringir.) Er það alls kostar rétt sem kom fram hjá ráðherranum að áhrifin af þessu frumvarpi á fólk á flótta væru hverfandi?