Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég held að ég taki upp þráðinn þar sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson lét hann liggja varðandi fólk á flótta og hvernig, ja ekki bara hvernig stefna ríkisstjórnarinnar birtist í frumvarpi til útlendingalaga sem við höfum oft rætt, heldur hvort við ættum að hafa áhyggjur af því að hún birtist líka í þessu frumvarpi sem lætur kannski ekki mikið yfir sér. En hlustum aðeins eftir því sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan.

Ég spurði ráðherra út í 25. gr. frumvarpsins þar sem lagðar eru til breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem fjallar einmitt um brottvísun ríkisborgara þriðju ríkja án dvalarleyfis. Þegar ráðherra svaraði því hverju stæði til að ná fram með þessu ákvæði þá sagði hann að þar sem erfiðlega hefði gengið að innleiða þetta ákvæði með útlendingafrumvarpinu hafi verið ákveðið að gera það með þessu frumvarpi. Ráðherrann er sem sagt búinn að átta sig á því að stóra, ljóta útlendingafrumvarpið hans mun væntanlega ekki komast í gegn á þessu þingi frekar en í tíð þeirra þriggja síðustu ráðherra sem hafa gert tilraun til að leggja það fram og klára. Þess vegna pikkar hann út ákveðin atriði sem hægt er að læða með einhverju öðru til að liðka fyrir einhverri framkvæmd sem ég vænti að allsherjar- og menntamálanefnd kafi ofan í hvað felur í sér.

Þarna vísaði ráðherrann til þess að nauðsyn þess að fá þetta ákvæði í lög væri m.a. 3. mgr. 14. gr. þessa frumvarps. Sú málsgrein snýst um það að við eftirlit með för fólks úr landi sé lögreglu heimilt að vísa ríkisborgara þriðja ríkis úr landi og banna honum endurkomu. Þannig að þegar einhver er að fara úr landi þá geti lögreglan vísað honum úr landi. Í greinargerð er þetta útskýrt með því að Schengen-fólkið segi að það sé mikil nauðsyn á þessu og ég efast ekki um að því fólki þyki það. En ég vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði þetta vel vegna þess að þetta er — já svona fyrir mig sem ekki hef unnið við landamæravörslu þá er þetta dálítið kúnstugt. Þarna er fólk að fara frá landi og lögreglan vill hafa heimild til að sparka svo rækilega á eftir því að viðkomandi geti ekki komið aftur til Schengen-svæðisins í ákveðinn árafjölda. Svona ákvörðun hefur alveg gríðarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga. Schengen-svæðið er stórt og það er eftirsótt að komast þangað og það er búið að reisa alveg gríðarlega háa múra umhverfis svæðið þannig að það sé erfitt fyrir fólk frá þriðju ríkjum að fá hingað vegabréfsáritanir eða dvalarleyfi og hér á að sparka fólki aðeins fastar yfir virkismúrinn þegar það er á leiðinni út ef það dvelur ólöglega á Schengen-svæðinu, stendur í þessari 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins.

Þarna vandast málið náttúrlega og ýmsar viðvörunarbjöllur fara í gang vegna þess að hæstv. ráðherra talar ítrekað eins og hælisleitendur séu í ólöglegri dvöl, að eftir ákveðinn tímapunkt þegar stofnanir ráðherrans eru búnar að komast að því að þær vilji losna við viðkomandi sem sækir um vernd þá sé viðkomandi ólöglegur. Ætli þetta ákvæði myndi ná yfir eitthvað af því fólki? Við hefðum kannski fengið betri rýni á því frá sérfræðingum ef þetta frumvarp, þetta umfangsmikla og áhrifamikla frumvarp hefði ekki verið sett í samráð í jólafríinu. Það var kannski með ráðum gert hjá ráðherranum að passa upp á það að gagnrýnisraddirnar sem trufla hann svo oft heyrðust síður. En það hefur þá alla vega ekki haft þau áhrif að þingið loki augum fyrir því sem mögulega getur fylgt þessu máli. Ég held að það sé sérstök ástæða til þess að skoða þetta frumvarp í samhengi við útlendingafrumvarp hæstv. ráðherra, sjá hvernig þessi mál verka saman.

En talandi um samverkan þá má ég til með að nefna það sem ég ræddi við hæstv. ráðherra í andsvörum áðan, að ráðuneytið hafi ekki talið ástæðu til að leggja mat á áhrif á persónuvernd einstaklinga. Við hæstv. ráðherra. vorum dálítið að tala í kross, ég held við höfum ekki alveg skilið hvor annan. Hann benti mér aftur og aftur á það sem stendur í greinargerðinni, að ráðuneytið hafi ákveðið þetta vegna þess að persónuverndarákvæði frumvarpsins byggi á persónuverndarreglum Evrópusambandsins. Síðan sagði hann í andsvari að persónuverndarreglur Íslands væru ekki frábrugðnar ESB-reglum. En það er ekki það sem ég var að reyna að benda á, og ég vona að allsherjar- og menntamálanefnd skoði þetta líka rækilega, vegna þess að þó að við tökum persónuverndarákvæði beint úr reglum Evrópusambandsins inn í þetta frumvarp þá þurfum við að meta áhrifin á persónuvernd einstaklinga sem þessi lög hafa bein áhrif á og það mat byggir á verkan þessara laga á öll hin lögin í íslenska lagasafninu sem þau kunna að snerta. Þó að það sé fullt samræmi á milli persónuverndarákvæðanna hérna og þeirra sem Evrópusambandið leggur til þá getur vel verið að vegna einhverra víxlverkandi áhrifa á milli eldri laga í lagasafni íslenska ríkisins geti persónuverndaráhrifin verið ófyrirséð og neikvæð. Þetta hefði ég haldið að væri eitt af þeim lykilatriðum sem þyrfti að skoða í ráðuneytinu, sérstaklega svona skömmu eftir að lög um persónuvernd voru innleidd. Við erum enn þá í innleiðingarfasa á því regluverki öllu, sem er eðlilegt. Þetta var umfangsmikið regluverk og róttæk breyting á þeirri nálgun sem við þurfum að viðhafa þegar kemur að persónuupplýsingum einstaklinga. Þess vegna er ekkert óeðlilegt, jafnvel þótt verið sé að leggja fram frumvörp með óbreyttum efnisatriðum frá gildandi lögum, að láta mat fara fram meira að segja á þeim ákvæðum út frá áhrifum á persónuvernd, vegna þess að lög sem voru samþykkt hér í þingsal fyrir 10 eða 20 eða 30 árum, þó að ekki hafi reynt á það hvort þau hefðu slæm áhrif á persónuvernd þá gæti vel verið að þau uppfylli ekki þau skilyrði sem við gerum til slíkra laga.

Nú er ég að reyna að muna, herra forseti, hvaða frumvarp það var aftur sem við vorum að ræða hér bara fyrr í mánuðinum sem svona háttar til um, ég held að ég muni það ekki, en í það minnsta þarf að skoða rækilega hvernig þetta frumvarp hefur áhrif á a.m.k. þá lagabálka sem breytt er samhliða því að setja ný lög um landamæri. Þar eru það lög um útlendinga fyrst og fremst. Það eru dálítið viðamiklar breytingar á lögum um útlendinga. Þetta er í stafliðum, ég kann ekki alveg að telja þá en þetta nær niður í l-lið. Ætli l sé ekki svona í kringum 10. sæti í stafrófinu? Og þarna undir eru ákvæði sem mér sýnast að mestu leyti snúast um brottvísun fólks af landinu. Það er verið að snerta á 98. gr. útlendingalaga varðandi það, það er verið að snerta á 106. gr. laganna. Jú, líka 101. gr. Það eru viðamiklar breytingar á útlendingalögum sem er laumað hér með sem breytingum á öðrum lögum. Svo við tökum bara eitt dæmi er hér bætt inn almannaheilbrigði sem einni af brottvísunarástæðum 106. gr. útlendingalaga. Þetta er til samræmis við Schengen-reglugerðina og þetta er til samræmis við einhver ákvæði í útlendingalögum. En það sem gæti breyst með 106. gr. útlendingalaga og með þessu er að nú fer þetta að ná til nýs hóps, nú fer þetta að ná til einstaklinga utan Schengen-svæðisins. Hvað er almannaheilbrigði? Það er ekki skilgreint í íslenskum lögum en í Schengen-reglugerðinni er það skilgreint sem grunur um smitbera sjúkdóms sem er skilgreindur á einhverjum lista hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eða grunur um eitthvert sníkjudýr. Þetta eru sem sagt einhverjir sjúkdómar og einhverjar pöddur sem fólk getur borið með sér. En það verður kannski dálítið erfitt að framfylgja svona ákvæði gagnvart einstaklingum nema með því að fara að setja upp, eins og við upplifðum svo sem í kórónuveirufaraldrinum, einhverjar skimunarstöðvar á landamærum og meina fólki aðgengi nema að það fari í gegnum þær. Þótt yfirlýstur tilgangur þessarar viðbótar sé væntanlega að tryggja lýðheilsu, tryggja almannaheilbrigði, þá þýðir þetta líka í reynd að stjórnvöld geta sett dálítið harðan landamæramúr utan um landið. Ef allir einstaklingar utan Schengen-svæðisins þurfa að sýna fram á að vera ekki smitberar út frá einhverri upptalningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þá rætist kannski draumur þeirra sem vilja geta snúið frá öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd á Keflavíkurvelli.

Ég hef dálitlar áhyggjur af þessu, herra forseti, og ég veit að félagar mínir í allsherjar- og menntamálanefnd munu skoða þessi atriði vel og vandlega, skoða sérstaklega það sem snýr að brottvísunum, hvort verið sé að ganga of langt í að liðka það ferli fyrir stjórnvöldum og það sem snýr að því að geta búið til einhverja nýja þröskulda, hærri þröskulda fyrir fólk sem leitar ásjár hjá íslenskum stjórnvöldum og sækir um alþjóðlega vernd. Af því að það væri óskaplega leiðinlegt ef ráðherrann væri með þessu frumvarpi, eins og hann sagði í andsvari, að innleiða ákvæði með frumvarpi til laga um landamæri vegna þess að það hefur gengið erfiðlega að gera það í útlendingafrumvarpinu. Það er alla vega ekki mjög heiðarleg leið til að þrengja réttindi útlendinga, að lauma þeirri breytingu með þessu frumvarpi.