Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hvort ég trúi því að hér sé ráðherra að nýta sér hraðleið til að koma breytingum í gegn? Ja, það er náttúrlega það sem hann sagði berum orðum varðandi ákveðna þætti. Hann sagði að þar sem erfiðlega hefði gengið að innleiða ákvæði brottvísunartilskipunar Evrópusambandsins í gegnum útlendingafrumvarpið þá hefði verið ákveðið að gera það með þessu frumvarpi. Brottvísunartilskipunin er ekkert óskaplega góð. Hún er, eins og annað sem snertir flóttafólk og evrópskt regluverk, afsprengi málamiðlana í kolvitlausar áttir innan Evrópu og er eitthvað sem við ættum ekki að innleiða í blindni heldur reyna að gera betur ef við viljum standa með mannúðinni. Hún er samt kannski ekki stóra vandamálið í þessu heldur hvort verið er að nýta þetta frumvarp til að gera aðrar breytingar með sömu formerkjum. Ráðherrann er búinn að viðurkenna að hann ætli að „lauma“ brottvísununartilskipuninni með þessu frumvarpi. En hvað með allt hitt? Er verið að lauma fleiru með? Áður en þessi umræða byrjaði hefði ég varla trúað því. En eftir að ráðherrann sagði: Jú, heyrðu, við ætlum að nýta ferðina til að gera þessa breytingu varðandi brottvísunartilskipunina, þá er ég, því miður, herra forseti, farinn að trúa því að það gæti eiginlega hvað sem er leynst í þessu frumvarpi. Það er nokkuð efnismikið. Því fylgja ekki mjög ítarlegar umsagnir úr fyrra samráðsstigi á vegum ríkisstjórnarinnar. Þannig að ég vona bara að allsherjar- og menntamálanefnd fái þær efnisríku umsagnir frá sérfræðingum úti í bæ inn í þetta frumvarp sem við þurfum til að fullvissa okkur um að ekki sé verið að lauma fleiru með.