Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get alla vega fullvissað hv. þingmann um að þessi ræða gaf mér a.m.k. tilefni til að sannfærast um að við þyrftum að vanda okkur sérstaklega við þetta og fá inn gesti og umsagnir sem geta leitt þetta í ljós. En ég verð að viðurkenna að þó að það hafi verið áhugaverður punktur áttaði mig ekki alveg á áhyggjum hv. þingmanns á þessari klausu um að ekki hafi verið talin ástæða til að nýta persónuverndarsjónarmiðin vegna þess að það væri í rauninni samkvæmt persónuvernd ekki þörf á því. En það er býsna áhugavert og ég bið hv. þingmann um að skýra það aðeins betur út fyrir mér. Ég velti því hreinlega fyrir mér þegar ég hlustaði á ræðurnar hvort viðhorf hæstv. ráðherra væri það að þessi söfnun á upplýsingum, sem fyrst og fremst verður um fólk utan gildissvæðis evrópskrar persónuverndar, að honum þætti það veigaminna, að við gætum með öðrum orðum leyft okkur að fara dálítið frjálslega með það og safna upplýsingum um fólk sem ekki nýtur þeirrar persónuverndar og löggjafar sem við þrátt fyrir allt gerum, eða er það misskilningur hjá mér?