Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ kannski að byrja á því að nefna annað dæmi um eitthvað sem gæti verið að laumast með, sem er þessi breyting á 106. gr. laga um útlendinga, þar sem verið er að bæta því inn að það megi frávísa við komu til landsins á grundvelli almannaheilbrigðis. Vegna þess að 106. gr. er dálítið massíf, hún snýst um að það sé heimilt að vísa útlendingi frá landi við komuna til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu ef hann tikkar í ákveðin box. Og þarna er verið að bæta við einu boxi í viðbót. Þó að það sé gert með vísan til Schengen-reglugerðar þá hlýtur allsherjar- og menntamálanefnd að þurfa að staldra við og skoða hvort þetta uppfylli meðalhóf eða ekki eða hvort þetta bjóði upp á einhverja misnotkun.

Varðandi mat á persónuverndaráhrifum þá held ég að það geti tvímælalaust spilað inn í að fólkið sem þessi löggjöf nær til — ja, ráðherrann eða stjórnvöld eða hver það er sem ákveður þetta lítur kannski ekki á viðkomandi sem umbjóðendur sína í sama mæli og íslenska ríkisborgara. Og þó að þetta sé kannski óþarfa smámunasemi eða að fólki kunni að finnast það, þá er þetta bara ein af þeim kröfum sem við þurfum að gera til vandaðrar lagasetningar.

Af því að hv. þingmaður er svo hrifinn af myndlíkingum og húsasmíðum þá er þetta dálítið eins og við værum að skipta um karma í glugga og ætluðum síðan að mála þá og vildum sleppa við að ryksuga bara af því að við gengum svo vel um. En við sleppum því samt ekkert af því að það geta verið sagagnir hérna úti um allt. Við tökum bara ekki sénsinn.