Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[21:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Sú umræða sem hefur átt sér stað hérna í þinginu í dag um málefni flóttafólks og innflytjenda hefur vakið athygli mína í það minnsta. Maður veltir fyrir sér framlagningu þessa útlendingafrumvarps, sem rætt hefur verið hér, í fjórða sinn og síðan framlagningu þessa frumvarps um landamæri, hvort þetta sé tilviljun að þetta sé að gerast á sama tíma. Einhvern veginn finnst mér þetta leiða hvort annað og ég upplifi sjálfur prívat og persónulega harðari tón í þessum málaflokki en hefur verið oft áður, þó svo að stefna Íslendinga hvað varðar innflytjendur hafi oft og tíðum verið æðisérkennileg. En það þarf að taka fyrir þessa stefnu alla og málaflokk útlendingamála heildrænt. Þær fréttir sem maður hefur verið að lesa um í fjölmiðlum um þessar fjöldabrottvísanir vekja auðvitað ugg í brjósti manns.

Það má svo sem velta þessu fyrir sér í samhengi við þá stöðu sem við upplifum í heiminum í dag. Við erum að upplifa stríð í Evrópu, við erum að upplifa veðurhamfarir og uppskerubrest. Við sjáum pólitískan og efnahagslegan stöðugleika víða. Við erum að sjá hamfarir, hreinlega veðurhamfarir, og í morgun heyrðum við fréttir um að það eru 100 milljónir manna flótta. Á síðustu mánuðum hefur flóttafólki fjölgað um 10 milljónir. Þetta er um 1% allra jarðarbúa. Staðan er í raun og veru sú að allur þessi gífurlegi fjöldi er — það eru bara 13 ríki í heiminum sem eru fjölmennari en allur sá fjöldi sem er á flótta. Maður spyr þá við þær aðstæður: Þurfum við ekki að gera meira frekar en minna? Eigum við að senda fólk heim eða út í óvissu á sama tíma og við sjáum þessa hluti gerast? Eigum við fylgja einhverri ómannúðlegri sjálfstýringu og beita fyrir okkur valdaleysi hvað þetta varðar? Við eigum einmitt fyrst og fremst að sýna samkennd og hjálpa fólki af því að það á bara skilið, rétt eins og við sjálf, aðstoð frá þeim sem geta hjálpað.

Það eru auðvitað grundvallarsjónarmið í mannlegu samfélagi að við reynum að veita aðstoð þar sem við getum veitt hana. Ég fæ ekki séð annað en að nýbúar sem hingað flutt hafi auðgað íslenskt mannlíf og auðgað fjölbreytni íslensks mannlífs og auðgað íslenskt samfélag, alveg burt séð frá því með hvaða hætti fólk hefur komið til landsins, hvort sem það hefur komið sem flóttafólk eða loftslagsflóttafólk eða bara fólk sem leitar hingað vegna þess að það er að leita að betri aðstæðum og betri lífskjörum fyrir sig og sína. Ég get ekki séð að það sé einhver glæpur fólginn í því að vilja bæta aðstæður sinna nánustu, fjölskyldu sinnar, barna sinna. Við skulum ekki gleyma því að stór hluti af Skandinavíu og Íslandi fór til Ameríku á sínum tíma til að leita betri kjara af því að þau kjör sem til staðar voru í þeirra samfélagi voru of slæm til þess að fólk gæti lifað sómasamlegu lífi. Þannig eru aðstæður víða. Það er verið að skammast yfir því að fólk frá Albaníu leiti hingað. En af hverju leitar það hingað? Af því að það lifir ekki ásættanlegu lífi í sínu landi. Að stilla fólki þannig upp að það eigi ekkert að koma hingað af því að það sé ekki verið að drepa í heimalandinu, það sé ekki verið að skjóta á það — ef hér væri allt á hliðinni og börnin okkar fengju ekki að borða, þá myndum við sjálf leita til annarra landa eftir aðstæðum sem væru þannig að fólkið okkar myndi geta lifað af. En það er ekki bara það að við séum að taka við fólki og það verði baggi á samfélaginu okkar; okkur vantar fólk, Ísland vantar fólk. Við erum allt of fámenn. Við þyrftum að vera a.m.k. milljón til þess að reka þá samfélagslegu innviði sem við viljum reka í þessu samfélagi. Okkur vantar fólk í tæknigreinar og okkur vantar fólk í byggingariðnað, okkur vantar fólk í ferðaþjónustu, okkur vantar fólk í veitingageirann, okkur vantar fólk í heilbrigðisgeirann. Það er alls staðar skortur á starfsfólki og það er alls staðar skortur á hæfileikum. Þess vegna á maður erfitt með að horfa upp á og skilja að verið sé að meina fólki þátttöku í íslensku samfélagi. Það er ekkert verið að tala um það endilega að þetta verði bara allt galopið. Við hljótum að setja einhvers staðar einhver mörk, en þau mörk sem verið er að setja núna finnast mér vera að mörgu leyti grimm. Ég styð og ég skil að það þurfi að búa til einhverja aðgerðaáætlun utan um þennan málaflokk en sú aðgerðaáætlun ætti að mótast af mennsku, að við höfum samúð með fólki sem á við erfiðleika að stríða og við tökum á móti því með opinn faðminn.

Það er ekkert að því að byggja upp samfélag sem er fjölþjóðlegt. Ég þekki það bara úr mínu sveitarfélagi þar sem eru töluð á milli 40 og 50 tungumála og hlutfall erlendra íbúa er fjórðungur af heildarfjölda samfélagsins okkar og ég fæ ekki betur séð en að það hafi bara gert samfélaginu gott. Við sjáum ungmenni sem hafa dvalið þar og farið inn í skólakerfið okkar og þau skara fram úr á, ekki bara einu sviði heldur á mörgum sviðum. Fullt af krökkum skara fram úr í íþróttum, í menningarlífinu, í tónlistinni, þannig að ég get ekki annað séð en að við ættum að fagna fjölbreytileikanum. Yfirskrift Reykjanesbæjar er Í krafti fjölbreytileikans, vegna þess að við skiljum það í mínu sveitarfélagi að það er kraftur í fjölbreytileikanum. Ef við berjumst gegn því að fjölbreytnin verði meiri erum við að mínu mati á rangri vegferð. Það er heimóttarskapur að gera slíkt.

Ég verð bara að taka undir það sem hér hefur verið sagt: Það á ekki að viðgangast að senda fólk til baka í aðstæður sem standast ekki þær kröfur sem við gerum sjálf til eðlilegs lífs. Í dag sá ég myndir frá Grikklandi inni á Facebook og það var ekki falleg sjón; að senda fólk út á götu í Grikklandi er í mínum huga bara níðingsverk. Það getur enginn róið árabát til Íslands. Þú þarft að hafa viðkomu einhvers staðar. Þú kemst ekki allar leið á árabát. Við vitum um hundruð þúsunda manna sem hafa drukknað á Miðjarðarhafinu og þú leggur ekki á þig slíkt ferðalag nema vegna þess að þú átt við vanda að stríða. Þú ert tilbúinn til þess að „offra“ lífi þínu, barnanna þinna, af því að aðstæður í heimalandi þínu eru slíkar að þú getur ekki lifað og þú tekur þennan séns til að koma fjölskyldunni í skjól. En því miður komast ekki allir í skjól. Þannig að ég vil bara leggja það að þessari ríkisstjórn að hér verði unnið af góðmennsku og mannúð til að sinna þessum hópi sem nú þegar er farinn að upplifa erfiðar og skelfilegar aðstæður í landinu sínu. Við eigum ekki að mismuna fólki eftir því hvaðan það kemur. Það á bara ekkert að líða það að hvítir, kristnir menn séu meira velkomnir en blökkumenn frá Afríku eða einhver frá Írak. Ég vil hvetja stjórnvöld, ríkisstjórnina til að beita mannúð í þessu. Við eigum ekki að nota reglugerðir eða tilskipanir, sem að mörgu leyti eru úreltar og lönd eru farin að endurskoða og vilja breyta, til að réttlæta það að fólki sé vísað úr landi. Höfum góðmennskuna að leiðarljósi.