Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[22:07]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, mér finnst gæta ákveðins tvískinnungs í þessum málaflokki, ekki bara hjá okkur heldur í Evrópu allri. Það er eins og allt fari á hliðina við það að flóttamenn komi til Evrópu, en flestir flóttamenn eru bara annars staðar en í Evrópu. Við höfum verið að gagnrýna Tyrkland fyrir mannréttindabrot en það er stór fjöldi flóttamanna í Tyrklandi. Evrópa hefur verið að gagnrýna Tyrki fyrir mannréttindabrot en Tyrkir taka á móti flóttafólki. Líbía, eitt fátækasta ríkið, tekur á móti fullt af flóttamönnum. Þannig að jú, við ríka fólkið í Evrópu — það gætir ákveðins tvískinnungs í þessu. Það eru komnir einhverjir 1.500 flóttamenn til Íslands á þessu ári, 1.000 frá Úkraínu og við höfum tekið þeim opnum örmum, sem er bara virðingarvert, og við eigum að gera það. En á sama tíma eru þá einhverjir aðrir, 500 manns, sem við vitum ekkert um, við vitum ekkert hvar þeir eru. Dvelja þeir í blokk uppi í Ásbrú, allir saman? Ég upplifi ástandið stundum þannig að verið sé að reka rollur í rétt: Mönnum er hrúgað saman frá sitthvoru landinu, tala ekki sama tungumálið, en við vitum ekki neitt. Hvar eru þessir 500? Fá þeir fá sama búnað og flóttamennirnir frá Úkraínu?