Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

landamæri.

536. mál
[22:11]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég myndi að sjálfsögðu fagna því ef hæstv. forsætisráðherra myndi bara sýna ákveðna djörfung í þessu máli og taka frumkvæði. Það þarf ekki alltaf að leita leiðsagnar í góðum málum einhvers staðar annars staðar. Ef við erum þannig innréttuð að við viljum standa með fólki getum við bara gert það sjálf. Við þurfum ekkert að leita eftir einhverju áliti frá Svíþjóð, Noregi eða Danmörku, við gerum þetta bara á okkar forsendum. Staðan er auðvitað sú að hér hefur fólk dvalið síðan 2019, kannski í þrjú ár. Hér eru lítil börn búin að vera í skóla, eignast fullt af vinum, búin að læra íslensku. Hér er um mæður búnar að eignast börn á Íslandi. Þetta er hópur sem á að fara að vísa úr landi. Ég skil ekki hvernig stendur á því að við ætlum bara yfir höfuð að gera þetta, að við séum að taka hóp sem er búinn — ja, að við heyrum engin vandamál. Þetta er hópur sem er búinn að vera í aðlögun hérna á Íslandi, samlagast íslensku samfélagi og gengur það bara ágætlega. Að við séum að vísa fólki út í einhverja óvissu er óboðlegt. Eða eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson sagði í dag: Viljum við senda fólk í aðstæður sem við viljum ekki sjálf vera í? Af hverju erum við að bjóða öðru fólki það sem við sjálf erum ekki tilbúin fara í, að upplifa? Ég myndi vissulega vilja að hæstv. forsætisráðherra gerði einhverjar þær ráðstafanir sem yrðu til þess að þessi hópur fengi að dvelja hér áfram eins og hann hefur gert undangengin tvö eða þrjú ár og aðlagast íslensku samfélagi bara mjög vel.